Ákvæði um dómaraskilyrði í Félagsdómi er nú að finna lokamálsliðum 3 og 4.mgr. 39.gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Þar segir að dómarar skuli uppfylla hæfisskilyrði 2.mgr. 29.gr. laga um dómstóla nr. 50/2016.
Hæfisskilyrðum var breytt með lögum nr. 42/2022 en áður var það svo að dómurinn skiptist í tvennt, annars vegar löglærða dómara, sem hefðu innsýn í lagaleg atriði málanna, og hins vegar ólöglærða dómara, sem þekktu vel til málefna vinnumarkaðarins. Fyrir gildistöku breytinganna hafði framkvæmdin þróast þannig að aðilarnir skipuðu oftast löglærða menn til setu í dóminn, þótt þess hafi ekki þurft.
Dómarahæfi
Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur eru fá ákvæði um það, hvenær dómarar eru vanhæfir. Í 48. gr. laganna segir að dómarar þeir sem tilnefndir eru af Hæstarétti víki sæti eftir sömu reglum og gilda um hæstaréttardómara. Dómurinn úrskurðar hvort dómari skuli víkja sæti. Ekki er að finna önnur ákvæði um hæfi dómara í lögunum, en reglum réttarfarslaga hefur verið beitt um hæfi dómara tilnefndra af Hæstarétti og félagsmálaráðherra.
Um dómara sem valdir eru af aðilum vinnumarkaðarins hefur ekki verið farið strangt í sakir. Á fyrstu árum Félagsdóms átti sæti í honum forseti Alþýðusambands Íslands, og dæmdi hann jafnt í málum sambandsins sem öðrum. Ekki var honum vikið úr dómi vegna hættu á hlutdrægni. Þessi háttur hefur einnig tíðkast í Danmörku, þar sem forseti danska alþýðusambandsins hefur löngum verið dómari í vinnumarkaðsdómstólnum þar. Bent hefur verið á það atriði að þótt aðilar vinnumarkaðarins velji dómara í dóminn, þá eigi málflutningur að fara fram fyrir dóminum en ekki innan hans. Dómarar eru valdir vegna sérþekkingar á málefnum vinnumarkaðarins og til að dæma hlutlægt í málum, en ekki til að tala máli annars málsaðila.
Í Félagsdómi 1/1991 (IX:406) var þess krafist að dómari, sem tilnefndur var af BHMR viki sæti, þar sem eiginkona dómarans væri formaður í einu aðildarfélagi BHMR. Kröfunni var hafnað með þeim rökum að samkvæmt 48. gr. laga nr. 80/1938 skyldu þeir dómarar sem tilnefndir væru af Hæstarétti víkja eftir sömu reglum sem gilda um hæstaréttardómara en í 6. gr. laganna væru reglur um þetta efni. Ekki hefðu lög nr. 80/1938 sérstök ákvæði um það, hvenær hinir dómarar Félagsdóms eigi að víkja sæti. Þyki ekki felast í 69. gr. laganna að um þetta skuli gilda reglur einkamálalaganna. Með gagnályktun frá ákvæðum 48. gr. laga nr. 80/1938 tækju hin sérstöku dómaraskilyrði þeirra dómara Félagsdóms sem tilnefndir væru af Hæstarétti ekki til dómara þeirra sem tilnefndir væru af ASÍ, VSÍ eða öðrum aðilum. Þyki af því leiða að þessum aðilum sé heimilt að tilnefna til setu í Félagsdómi þá menn sem fullnægðu almennum skilyrðum fyrri hluta 42. gr. laga nr. 80/1938, það er væru íslenskir ríkisborgarar, fjár síns ráðandi og hefðu óflekkað mannorð.
Ef aðaldómari og varadómari hans neita að dæma í ákveðnu máli, skal sá sem hefur tilnefnt þá tilnefna dómara í þeirra stað, ella gerir dómsforseti það, samanber 41. gr. laga nr. 80/1938. Dómurinn verður að vera fullskipaður svo að hann sé starfshæfur.
Dómarar sem hafa ekki lokið meðferð máls þegar kjörtímabil þeirra er á enda skulu eigi að síður halda áfram meðferð þess allt til enda.
Nokkur dæmi eru til um það að varamaður hafi tekið sæti dómara í Félagsdómi þar sem hinn reglulegi dómari hafði tekið að sér málflutning fyrir annan málsaðilann. Sjá hér Félagsdóma 4/1944 (II:129), 13/1944 (II:138), 5/1944 (II:142), 12/1944 (II:143),12/1944 (II:145) og 12/1944 (II:150). Hér stóð þannig á að málin voru höfðuð áður en viðkomandi aðili var skipaður dómari í Félagsdóm, en málflutningur ekki farið fram fyrr en eftir skipun hans. Engin athugasemd var gerð við þessa tilhögun, en þetta var dómari sem skipaður var af hagsmunaaðila, og gæti það verið vísbending um að aðrar siðferðiskröfur giltu um þá en aðra dómara í Félagsdómi. Einnig má benda á að langt er um liðið og þessi framkvæmd hefur ekki verið endurtekin.
Á fyrstu áratugum Félagsdóms voru mikið til sömu mennirnir dómarar. Til dæmis var formaður dómsins sá sami í 36 ár.