VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Læknisskoðanir

Stundum er að því spurt hvort nauðsynlegt sé að skoðun fari fram hjá lækni svo að starfsmaður eigi rétt til launagreiðslna í veikindum. Í lögum um uppsagnarfrest og veikindarétt nr. 19/1979 er einungis fjallað um þörf á læknisvottorði sem sönnun fyrir veikindum starfsmanns óski atvinnurekandi þess. Atvinnurekandi getur ekki ákveðið hvaða athugun þurfti að fara fram til að læknir gefi út vottorð um heilsufar sjúklings. Það er alfarið mat læknisins en ekki atvinnurekandans en atvinnurekandinn getur krafist fullnægjandi læknisvottorðs.


Er skylt að fara í læknisskoðun
Í lögum er kveðið á um læknisskoðanir í ákveðnum tilvikum, t.d. í vinnuverndarlögum nr. 46/1980 og sóttvarnalögum nr. 19/1997 og skilyrði til vissra starfa eru bundin heilsufari, svo sem er með flugmenn og kennara. Hér er þó verið að fjalla um læknisskoðun sem skilyrði fyrir greiðslu atvinnurekanda í veikindum. Atvinnurekandi getur ekki skyldað starfsmann til að undirgangast læknisskoðun. Vakni spurningar um réttmæti læknisvottorðs getur atvinnurekandi alltaf snúið sér til trúnaðarlæknis síns, séu ekki ákvæði um læknisskoðanir í kjarasamningi. 

Ákvæði kjarasamninga
 
Dæmi eru um það í kjarasamningum að starfsmönnum sé skylt að undirgangast læknisrannsókn. Slík ákvæði er til dæmis að finna í kjarasamningi ÍSAL. Hér er um að ræða reglubundnar læknisskoðanir sem teljast hluti af fyrirbyggjandi heilsugæslu en veita atvinnurekanda engan rétt til skoðunar í veikindum og verða atvinnurekendur að fá trúnaðarlækna sér til aðstoðar.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn