VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Brot í starfi, óstundvísi, frammistaða, óheiðarleiki, trúnaðarbrestur

Trúnaðarmaður getur þurft að hlíta uppsögn fyrir misfellur í starfi eða brot á þeim starfsreglum á vinnustað, sem starfsmönnum er almennt skylt að hlíta. Atvinnurekandi verður þá að hafa tilkynnt trúnaðarmanni skýlaust að áframhaldandi háttsemi verði mætt með uppsögn. Sjá hér Félagsdóma 1/1965 (V:193) og 1/1966 (VI:18). Í báðum þessum dómum var trúnaðarmönnum sagt upp störfum, og aðallega borið við óstundvísi. Báðar uppsagnirnar voru dæmdar ólögmætar þar sem áminning hafði ekki verið gefin. Sjá hér einnig Félagsdóma 4/1966 (VI:38), 4/1974 (VII:175) og 5/1989 (IX:314), þar sem uppsagnir voru dæmdar ólögmætar vegna þess að áminning var ekki gefin.

Í Félagsdómi 3/2004 voru málsatvik þau að stéttarfélag sendi atvinnurekanda að morgni 21. janúar 2003 tilkynningu um kjör trúnaðarmanns félagsins úr hópi starfsmanna. Þann sama dag, um hádegisbil, fékk hinn nýkjörni trúnaðarmaður uppsagnarbréf, þar sem honum var sagt upp störfum með viku fyrirvara og heimilað að láta strax af störfum. Af hálfu atvinnurekanda var því haldið fram að uppsögnin hafi verið vegna vanrækslu viðkomandi starfsmanns í starfi og vegna samstarfsörðugleika við þá sem með honum hafi starfað.  Fram kom í málinu að hann fékk uppsagnarbréfið í hendur á hádegi þess dags, er hann stimplaði sig úr vinnu vegna hádegishlés. Uppsögn bindur viðtakanda frá þeim tíma sem hún er komin til hans og hann á þess kost að kynna sér efni hennar. Gegn andmælum starfsmannsins taldi Félagsdómur ekki sannað að honum hafi verið sagt honum upp starfi áður en tilkynnt var um kjör hans sem trúnaðarmanns. Í uppsagnarbréfi voru ástæður uppsagnar ekki tilgreindar. Atvinnurekandinn gat ekki sýnt fram á að ástæður uppsagnar hafi verið aðrar en kjör viðkomandi starfsmanns sem trúnaðarmanns, svo sem vanræksla í starfi eða samstarfserfiðleikar. Niðurstaða Félagsdóms var því sú að með uppsögninni hefði umræddur starfsmaður verið látinn gjalda þess að hann var kjörinn trúnaðarmaður.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn