Þar sem kjarasamningur SA og ASÍ um hlutastörf nær einungis til þeirra starfsmanna sem taka laun eftir kjarasamningum ASÍ og SA þótti nauðsynlegt að setja ákvæði í lög um réttindi starfsmanna í hlutastörfum almennt sem þá tækju einnig til þeirra sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Lög nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum eru að efni til nær samhljóða fyrrnefndum kjarasamningi.
Samkvæmt lögunum taka þau til starfsmanna sem ekki eru með kjarasamningi tryggð þau lágmarksréttindi sem svara til efnisákvæða tilskipunar 97/81/EB um rammasamninginn um hlutastörf. Þá hafa lögin ekki áhrif á efni kjarasamninga sem gerðir eru til að innleiða efni tilskipunarinnar að því tilskildu að í þeim felist ekki lakari réttur en felst í tilskipuninni.