Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu. Um tveir þriðju hlutar launamanna í skipulögðum samtökum á Íslandi eru í ASÍ. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um réttindi þeirra. Félagsmenn í ASÍ eru 127 þúsund í 5 landssamböndum og 44 aðildarfélögum um land allt. Þar af eru ríflega 113 þúsund virkir á vinnumarkaði. Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ eru starfandi á flestum sviðum samfélagsins, á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum.
Alþýðusamband Íslands kemur fram fyrir hönd aðildarfélaga sinna gangvart stjórnvöldum, Alþingi, samtökum atvinnurekenda, fjölmörgum stofnunum samfélagsins, hagsmunasamtökum, alþjóðlegri verkalýðshreyfingu, alþjóðasamtökum og alþjóðastofnunum. Þá er margháttuð þjónusta við aðildarsamtökin mikilvægur þáttur í starfi ASÍ. Segja má að verkalýðshreyfingin hafi að verulegu leyti byggt upp það velferðarkerfi sem við njótum góðs af í dag, samstaðan og fjöldinn gerir henni kleift að hafa pólitísk áhrif og móta þjóðfélagið að þörfum fólksins. ASÍ gerir kröfu um úrbætur, völd og áhrif fyrir hönd félaga sinna, en úrslitavaldið þegar mest á reynir, til dæmis við gerð kjarasamninga eða verkfallsboðun, er ætíð í höndum fólksins í stéttarfélögunum.
ASÍ í hnotskurn
- ASÍ er stærstu hagsmunasamtök íslensks launafólks
- ASÍ berst fyrir bættum kjörum og réttindum
- ASÍ gætir hagsmuna launafólks gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum
- ASÍ sinnir margvíslegri þjónustu við aðildarfélög og félagsmenn
- ASÍ tekur virkan þátt í erlendu samstarfi samtaka launafólks