Saga Alþýðusambands Íslands og samfélagsþróunin hér á landi frá öðrum áratug 20. aldarinnar eru ofin saman í eina heild. Of lengi hefur saga þjóðarinnar verið máluð í einhæfum litum. Lítið hefur verið fjallað um kjör og stöðu íslenskrar alþýðu og baráttu fjöldasamtaka hennar fyrir hugsjónum um réttlátt samfélag, sanngjörnum launum og grundvallarmannréttindum.
Þegar skoðaðar eru aðstæður og kjör alþýðufólks yfir nær heila öld, frá bernskuskeiði verkalýðshreyfingarinnar fram á okkar daga, er ljóst að margt hefur breyst og flest ef ekki allt til hins betra. Nægir þar að nefna stöðu verkalýðshreyfingarinnar og afl til þess að semja um mannsæmandi laun og bætt kjör, svo sem veikindarétt, orlof, lífeyrisréttindi, réttinn til fæðingar- og foreldraorlofs, bættan aðbúnað og hollustuhætti, starfs- og endurmenntun, fullorðinsfræðslu og loks árangurinn af áratuga baráttu hreyfingarinnar í húnsæðismálum.