Alþýðusamband Íslands er heildarsamtök launafólks á Íslandi og beitir sér fyrir velferð og lífsgæðum landsmanna. Það berst fyrir bættum kjörum, jöfnum rétti, sömu launum fyrir jafnverðmæt störf og leggur sérstaka áherslu á jafnan rétt óháð kyni, búsetu og þjóðerni. Samtökin gera þá kröfu til íslensks velferðarsamfélags að þar njóti allir sömu tækifæra til menntunar og heilbrigðisþjónustu. ASÍ vill stuðla að öflugu og alþjóðlega samkeppnishæfu atvinnulífi sem gefur launafólki tækifæri til símenntunar og starfsþroska. Samtökin beita sér ennfremur fyrir því að verðmætasköpun atvinnulífsins skiptist með réttlátum hætti og skipi um leið íslensku samfélagi í fremstu röð á meðal þjóða heims.

Á Íslandi á enginn að líða skort. ASÍ leggur áherslu á aðgengi allra vinnufúsra handa að fullri atvinnu og gerir kröfu um vandaða samfélagsþjónustu sem tryggir öllum tækifæri til menntunar og starfa, einkum ungu fjölskyldufólki. ASÍ beitir sér fyrir sjálfsögðum rétti aldraðra og öryrkja til lífsgæða og jöfnu aðgengi barna og unglinga að þróttmiklu og þroskandi æskulýðsstarfi.

Bætt lífskjör í landinu eru aflvaki blómlegrar menningarstarfsemi, gæða fjölskyldulífsins og heilbrigðara samfélags. ASÍ gerir sér grein fyrir styrk heildarinnar og kappkostar að vinna daglegt starf sitt með þeim hætti að launafólk fylki sér að baki samtökunum, jafnt í varðstöðu þeirra sem sókn, og leggist með þeim á árar til þess að gera gott samfélag ennþá betra.

Hér fyrir neðan er stefna ASÍ í nokkrum mikilvægum málaflokkum eins og hún var samþykkt á 43. þingi ASÍ í október 2018.

 

ÖLL STEFNUMÁL ASÍ

Alþjóðamál

ASÍ tekur þátt í samstarfi verkalýðshreyfingarinnar á norrænum, evrópskum og alþjóðlegum vettvangi.

Atvinnumál

ASÍ styður atvinnuuppbyggingu með störfum sem standa undir góðum lífskjörum

Vinnuvernd

Verkalýðshreyfingin sér til þess að staðið sé við skuldbindingar um vinnuvernd.

Húsnæðismál

Öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum er grundvallarþáttur í velferð launafólks.

Lífeyrismál

Við leggjum saman í sjóð sem er ávaxtaður til að greiða okkur öllum lífeyri til æviloka.

Menntamál

Menntun í atvinnulífinu er hagsmuna­mál og viðfangsefni launafólks og atvinnurekenda.

Skattamál

Í stuttu máli styður ASÍ að fólk greiði skatta eftir efnum en fái grunnþjónustu eftir þörfum.

Umhverfismál

Við viljum sjálfbært samfélag þar sem velferð okkar rýrir ekki velferð komandi kynslóða.

Jafnréttis- og fjölskyldumál

Jafn réttur og tækifæri til launa og starfa eru grundvallar­mannréttindi.

Velferðarmál

Velferðarkerfið á að tryggja grundvallarmannréttindi og er forsenda félagslegrar samheldni.