Á nýjum tímum skipta alþjóðleg samskipti sífellt meira máli. Þetta á ekki síður við um verkalýðhreyfinguna en aðra. Á síðasta áratug hefur ASÍ tekið sífellt meiri þátt í samstarfi verkalýðshreyfingarinnar á norrænum, evrópskum og alþjóðlegum vettvangi. Með þessu hefur ASÍ tekið þátt í baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum kjörum og réttindum í Evrópu og heiminum öllum. Í þessu sambandi má t.d. minna á alþjóðlega baráttu fyrir mannréttindum, baráttuna gegn barnavinnu og baráttuna fyrir tryggingu félagslegra ákvæða í viðskiptasamningum. Stór hluti af þessu starfi fer fram í beinu samstarfi innan verkalýðshreyfingarinnar en sumt fer fram innan alþjóðastofnana eins og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) þar sem ríkisstjórnir heimsins taka þátt. Hér á landi hefur ASÍ reynt að beita áhrifum sínum til þess að hafa áhrif á stefnu íslenskra stjórnvalda í þessu starfi.

EES-samningurinn hefur gagnast Íslandi vel frá því að hann tók gildi í upphafi ársins 1994. Hann var umdeildur í upphafi og margir höfðu áhyggjur af þróun mála, einkum ýmsu sem sneri að vinnumarkaðnum. Fljótlega kom í ljós að þessar áhyggjur voru óþarfar og EES-samningurinn hefur ekki fært með sér nein neikvæð áhrif á íslenskan vinnumarkað. Það virðist vera nokkuð samdóma álit þjóðarinnar að EES-samstarfið hafi verið til hagsbóta og hafi nýst íslensku atvinnulífi vel til sóknar. Innan ASÍ er almennt talið að EES-samningurinn hafi fært íslensku launafólki ýmsar réttarbætur og að aðildin hafi þannig skilað jákvæðum árangri.

Allt frá því að samningaviðræðurnar um EES-samninginn hófust, hefur verið unnið ötullega að Evrópumálum á vettvangi ASÍ. ASÍ hefur tekið mjög virkan þátt í Evrópu­samstarfi verkalýðshreyfingarinnar á þessum tíma. Það gildir jafnt um norræna sam­starfið sem fyrst og fremst beinist að Evrópu og samstarfið innan Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC).

Á grundvelli EES-samningsins hefur ASÍ öðlast betri stöðu en ella innan ETUC og þannig komist í innsta hring. ASÍ hefur átt aðild að evrópsku vinnumarkaðsviðræðun­um og tekið þátt í öllum samningum um réttarbætur í félags- og vinnumarkaðsmálum sem hafa verið gerðir milli ETUC og Evrópusamtaka atvinnurekenda. ESB hefur síðan breytt þessum samningum í löggjöf sem gildir fyrir allt EES-svæðið. Að þessu leyti hefur ASÍ komist mun lengra inn í löggjafarstarf á vettvangi EES en íslensk stjórnvöld. Nú eru í farvatninu sams konar samningsmöguleikar fyrir evrópsk starfsgreinasamtök. Mörg aðildarsamtaka ASÍ eiga aðild að Evrópusamtökum og því möguleika á aðild að slíkum samningum.

Þrátt fyrir ágæti EES-samningsins er hann greinilega orðinn mun veikari en áður var. Áherslur ESB hafa færst í aðrar áttir og þekking stjórnmála- og embættismanna innan ESB á samningnum hefur minnkað mikið. Því er orðið sífellt erfiðara fyrir EFTA-ríkin að ná fram þeim réttindum sem samningurinn gefur. Það gildir einnig um vinnumarkað­inn. EES-samningurinn hefur skipt miklu máli fyrir íslenskt atvinnulíf og miklu skiptir að veik­ari staða hans hafi ekki neikvæð áhrif á atvinnulíf hér á landi, t.d. að fyrirtæki flytji héðan til þess að komast betur inn á innri markaðinn. Í þessu sambandi má ekki gleyma áhrif­um nýju evrópsku myntarinnar sem kann að valda því að fyrirtæki færi sig inn á evrusvæðið.

Í skýrslu utanríkisráðherra sem lögð var fram vorið 2000 er fjallað ítarlega um stöðu EES-samningsins. Segja má að þar komi fram sambærilegar áhyggjur um stöðu hans og verið hafa uppi innan ASÍ. Þátttaka Íslands sem fullvalda þjóðar í ákvarðanatöku á vettvangi EES hefur aldrei verið mikil vegna þess að við höfum orðið að yfirtaka þá löggjöf sem ákveðin er af öðrum. Veikari EES-samningur og þar með lakari kjör fyrir okkur hljóta að kalla á spurningar um hvernig að haga eigi viðbrögðum.

Nokkur umræða hefur verið um möguleika á því að Ísland geri tvíhliða samning við ESB í stað EES-samningsins. ASÍ leggst alfarið gegn slíkum hugmyndum og telur þær óraunhæfar. Hugmyndir af þessu tagi byggjast á því að Evrópusamstarfið snúist einungis um viðskipti. Að mati ASÍ snýst Evrópusamstarfið um nær allt okkar þjóðlíf. Þar má nefna málaflokka eins og félags- og vinnumarkaðsmál, neytendamál, menntamál, rannsóknir og þróun auk umhverfismála sem yrðu útundan í tvíhliða viðskiptasamningi. Það er augljóst að samtök eins og ASÍ hafa fengið betri sess en ella í Evrópusamstarfinu vegna aðildar Íslands að EES. Afturhvarf til tvíhliða samnings yrði stórt skref aftur á bak í Evrópusamstarfinu hvað áhrif ASÍ varðar.

Það er skoðun ASÍ að yfirlýsing um að sótt verði um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sé eina færa leiðin fyrir þjóðina. Þannig verði látið á það reyna í aðildarviðræðum hvaða samningur Íslandi standi til boða og hann lagður  fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu.

Helstu verkefni ASÍ eru:

Að taka virkan  þátt í Evrópusamvinnunni, bæði á Evrópuvísu og hér á landi, með það að markmiði að íslenskt launafólk njóti ávinninganna af sameiginlegri baráttu evrópskrar verkalýðshreyfingar. Að auka þekkingu  innan verkalýðshreyfingarinnar og meðal launafólks á Evrópusamvinnunni og þeim réttindum og tækifærum sem hún getur fært launafólki, með aukinni fræðslu og upplýsingamiðlun. Að vinna þeim grundvallarsjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar fylgi, að samkeppnishæft og framsækið efnahagslíf, atvinnustefna sem byggir á fullri atvinnu og eftirsóknarverðum störfum og aukin lífsgæði, séu ekki aðeins samrýmanleg markmið, heldur eigi þau að styrkja hvert annað. Að knýja á um að íslensk stjórnvöld móti framsækna efnahags-, atvinnu- og félagsmálastefnu sem byggi á framtíðarsýn verkalýðshreyfingarinnar um stöðugleika og samkeppnishæfni, fulla atvinnu, góð störf og félagslegan jöfnuð. Mikilvægur liður í þessu starfi er að Íslendingar móti sér markvissa stefnu í atvinnumálum og dragi lærdóma af reynslu Evrópuþjóða í þeim efnum.

Að vinna að því að treysta réttindi og kjör launafólks á íslenskum vinnumarkaði og að sköpuð verði nauðsynleg skilyrði fyrir góðri framkvæmd sameiginlegs evrópsks vinnumarkaðar hér á landi, án hættu á mismunun og félagslegum undirboðum. Til að ná þessu markmiði mun ASÍ ganga fast eftir því að stjórnvöld og atvinnurekendur tryggi að erlendir starfsmenn hér á landi njóti þeirra kjara og réttinda sem gilda á vinnumarkaðinum og að þeim verði gert mögulegt að aðlagast íslensku samfélagi. Að vinna að því að Íslendingar verði fullgildir aðilar að samstarfi Evrópuríkja á vettvangi Dyflinnarstofnunarinnar um rannsóknir og samanburð á vinnumarkaði og lífskjörum í Evrópu. Að vinna að því að verðlag á lífsnauðsynjum verði sambærilegt við það sem annars staðar gerist í Evrópu.

Að taka upp viðræður við stjórnvöld og samtök atvinnurekenda um aukið hlutverk og ábyrgð aðila vinnumarkaðarins við að þróa frekar íslenskan vinnumarkað sem byggir á traustum réttindum launafólks og sveigjanleika sem gagnast bæði launafólki og fyrirtækjum. Viðfangsefni Alþýðusambands Íslands er að leggja mat á kosti og galla þess hvort ná eigi framangreindum markmiðum með frekari þróun EES samningsins, eða umsókn um aðild að ESB.  ASÍ telur útilokað að hægt verði að ná þessum markmiðum með tvíhliða viðskiptasamningi án félagslegra ákvæða.

Alþýðusamband Íslands setti sér það verkefni á þingi sínu í nóvember 2000, að vera virkur og leiðandi þátttakandi í umræðunni um framtíð Evrópusamvinnunnar og hagsmuni íslensks launafólks. Við hljótum einnig að krefjast þess að stjórnmálamenn og hagsmunasamtök atvinnurekenda taki þátt í þessari umræðu af fullri alvöru. Sú umræða og stefnumótun verður að byggja á kröfunni um, að stefnumótun í efnahags-, atvinnu-, og félagsmálum þjóni hagsmunum launafólks, auki lífsgæði og félagslegan jöfnuð.

Framtíðarsýn ASÍ er:

Að staða Íslands í Evrópusamvinnunni verði treyst enn frekar og að tækifæri og ávinningar þeirrar samvinnu skili sér til íslensks launafólks. Að aukinni alþjóðavæðingu og opnun vinnumarkaðarins verði mætt með því að treysta stöðu erlendra starfsmanna hér á landi og tryggja að þeir verði ekki notaðir til að skerða kjör eða draga úr réttindum á vinnumarkaði. Að Íslendingar setji sér það markmið í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum, að íslenskt efnahagslíf verði framsækið og samkeppnishæft, tryggi sjálfbæran hagvöxt, fulla atvinnu, góð störf og félagslegan jöfnuð. Til að ná framangreindum markmiðum er nauðsynlegt að: Hér á landi verið beitt efnahagsstjórn sem byggi á því að treysta stöðugleika í efnahagslífinu og tryggja þannig betur samkeppnishæfni og vaxtarmöguleika íslenskra fyrirtækja.

Byggt verði á markvissri atvinnustefnu sem miði að því að skapa fleiri og betri störf, sem byggi á hæfu starfsfólki, frumkvæði og framsækni, aðlögunarhæfni og jafnrétti kynjanna. Öflug símenntun og annað tækifæri til náms eru mikilvægustu tækin til að ná þessum markmiðum. Skilgreind verði félagsleg markmið um vinnumarkað sem byggi á öryggi, en jafnframt sveigjanleika sem gagnist bæði launafólki og fyrirtækjum.

Ennfremur um mannsæmandi lífskjör fyrir alla og um vinnumarkað og atvinnulíf sem sé uppspretta frekari lífsgæða, með styttri vinnutíma, auknum möguleikum til símenntunar,  og betra samræmis  á milli atvinnuþátttöku og einkalífs.Þá leggur ASÍ áherslu á að viðurkennt verði mikilvægt hlutverk aðila vinnumarkaðarins og réttindi þeirra og skyldur við að þróa atvinnulífið og vinnumarkaðinn á þeim grunni sem hér hefur verið lýst.