Jafn réttur og jöfn tækifæri kvenna og karla til launa og starfa eru grundvallarmannréttindi. Enn er langt í land með að jafnrétti og jafnir möguleikar kynjanna verði að veruleika. Til að bæta stöðu kvenna í samfélaginu og á vinnumarkaði er mikilvægt að þær hasli sér völl á sem flestum sviðum. Jafnframt er mikilvægt að afhjúpa og uppræta kynbundinn launamun á íslenskum vinnumarkaði.
Mikilvægt er að konum og körlum verði gert mögulegt að samræma sem best fjölskylduábyrgð og þátttöku á vinnumarkaði, óháð fjölskylduformi. Aukin fjölskylduábyrgð og möguleikar karla til að taka virkan þátt í umönnun og uppeldi barna sinna eru eðlilegur réttur þeirra og um leið mikilvægt innlegg í baráttunni fyrir bættri stöðu kvenna á vinnumarkaði.
Fjölskylduvæn starfsmannastefna fyrirtækja skapar möguleika á samræmingu atvinnu- og fjölskyldulífs. Þá er mikilvægt að vinna gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum.
Í ljósi fjölgunar erlends launafólks hér á landi er mikilvægt að ASÍ vinni markvisst að málefnum þess. Með upplýsingagjöf um réttindi og skyldu á vinnumarkaði, baráttu fyrir aukinni íslenskukennslu, bættri stöðu barna nýbúa og menntunarmöguleika þeirra.
Jafnrétti kvenna og karla. Stefna og aðgerðaáætlun ASÍ 2012–2016.
Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum lagt vaxandi áherslu á jafnréttismálin og að tvinna saman jafnréttisbaráttuna og málefni fjölskyldunnar í heild. Árið 1997 kynnti ASÍ tillögur sínar að heildstæðu réttindakerfi fyrir foreldra á vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Megináherslurnar voru á að lengja verulega orlofsrétt foreldra, einkum feðra; að greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi yrðu hækkaðar verulega með því að tekjutengja greiðslur og taka upp foreldraorlof á launum. Ennfremur að auka til muna sveigjanleika til töku fæðingar- og foreldraorlofs og að treysta réttarstöðu foreldra í fæðingar- og foreldraorlofi.
Með lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem samþykkt voru í maí 2000 hefur verið komið til móts við kröfur Alþýðusambandsins í öllum veigamestu atriðum.
Eitt helsta viðfangsefni Alþýðusambandsins og aðildarfélaga þess næstu misseri er að kynna launafólki réttindi samkvæmt nýju lögunum og vinna að því að markmið laganna nái fram að ganga. Þetta á einkum við um aukinn rétt og möguleika feðra á að samræma atvinnuþátttöku og fjölskylduábyrgð.
Stytting vinnutíma og aukinn sveigjanleiki eru mikilvægar forsendur fjölskylduvænni vinnumarkaðar. Þar er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að stuðla að starfsmannastefnu fyrirtækja sem tekur mið af þessum sannindum.
Jafnrétti og fjölskylduvænn vinnumarkaður kalla á öflugt stoðkerfi samfélagsins. Næg dagvistun á hóflegu verði, góður grunnskóli og stuðningur við barnafjölskyldur í gegnum skattkerfið gegna hér lykilhlutverki.
Áherslur ASÍ:
- Jafn réttur og jöfn tækifæri kvenna og karla til launa og starfa eru grundvallar–mannréttindi.
- Mikilvægt er að afhjúpa og uppræta kynbundinn launamun.
- Sérstaklega ber að vinna að því að bæta stöðu kvenna í samfélaginu og hvetja þær til að hasla sér völl á sem flestum sviðum samfélagsins og á vinnumarkaði.
- Mikilvægt er að vinna gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum.
- Mikilvægt er að konum og körlum sé gert mögulegt að samræma sem best fjölskylduábyrgð og þátttöku á vinnumarkaði, óháð fjölskylduformi. Sérstaklega verður að vinna að því að karlar nýti sér þá möguleika sem skapaðir eru.
- Fjölskylduvæn starfsmannastefna fyrirtækja skapar möguleika á samræmingu atvinnu- og fjölskyldulífs, óháð fjölskylduformi.
- Mikilvægt er að Íslendingar taki virkan þátt í umræðu og samstarfi um jafnréttismál á alþjóðavísu og hagnýti sér þá þekkingu og reynslu sem þar verður til.
Helstu verkefni ASÍ eru að:
- Vera virkur þátttakandi í umræðunni í samfélaginu um jafnréttis- og fjölskyldumál og kynna sjónarmið samtaka launafólks.
- Vera lifandi vettvangur fyrir skoðanaskipti og stefnumótun verklýðshreyfingarinnar varðandi jafnréttis- og fjölskyldumál. Koma fram fyrir hönd aðildarsamtaka sinna gagnvart stjórnvöldum og samtökum atvinnurekenda í þessum málaflokki í samræmi við löggjöf og ákvarðanir aðildarsamtaka sinna hverju sinni.
- Vera lifandi vettvangur þar sem aðildarsamtökin miðla af reynslu og þekkingu hvert til annars og samræma sjónarmið sín og aðgerðir.
- Koma upplýsingum á framfæri til aðildarsamtaka sinna um launamun kynjanna og úrbætur í þeim málum.
- Afla og miðla upplýsingum til aðildarfélaganna um stöðu og þróun jafnréttismála á alþjóðavettvangi í gegnum alþjóðlega hreyfingu launafólks og í samstarfi við stjórnvöld, menntastofnanir og samtök atvinnurekenda.
- Standa fyrir öflugri kynningu á rétti launafólks til fæðingar- og foreldraorlofs með útgáfu upplýsingaefnis og umræðu um þá kosti sem ný lög fela í sér. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna réttindi feðra og að hvetja þá til að nýta þau.
- Standa fyrir umræðu og kynningu meðal launafólks og atvinnurekenda á fjölskylduvænni starfsmannastefnu í fyrirtækjum, m.a. með útgáfu á kynningarefni og fræðslufundum.