Launafólki á Íslandi ber samkvæmt kjarasamningum og lögum að greiða 4% af launum sínum til lífeyrissjóðs og atvinnurekanda að leggja fram 11,5% mótframlag til sjóðsins. Þetta iðgjald tryggir sjóðfélögum eftirlaun í ellinni en einnig greiðslu örorkubóta og barnabóta ef þeir missa starfsgetuna á starfsævinni. Ef sjóðfélagi fellur frá vegna veikinda eða slyss tryggir sjóðurinn eftirlifandi maka makabætur og barnabætur. Lífeyrissjóðirnir gegna því ekki síður mikilvægu hlutverki sem fjölskyldutrygging fyrir afkomu ungs fólks sem lendir í alvarlegum áföllum.
Sjóðssöfnun
Við leggjum saman í sjóð sem er ávaxtaður til að greiða okkur öllum lífeyri til æviloka. Vaxtatekjur mynda þannig yfir helminginn af útborguðum lífeyri. Þannig er lífeyrir framtíðarinnar tryggður með traustum sjóði fremur en vaxandi skattbyrði á afkomendur okkar.
Þetta er einn mesti styrkur íslenska lífeyrissjóðakerfisins, en mörg ríki glíma nú við mikinn vanda vegna þess að lífeyriskerfi þeirra byggja á samskonar gegnumstreymiskerfi. Það þýðir að lífeyrisgreiðslur á hverjum tíma eru fjármagnaðar af þeirri kynslóð sem er á vinnumarkaði með sköttum. Þetta skapar mikinn vanda þegar aldurssamsetning þjóða breytist og fámennari kynslóðir yngra fólks þurfa að standa undir lífeyrisgreiðslum til fjölmennari kynslóða eldra fólks. Hér á landi eru í dag um 6 manns á vinnumarkaði fyrir hvern einn sem er á eftirlaunum. Árið 2030 munu ekki vera nema 3 á vinnumarkaði fyrir hvern eftirlaunaþega og mun það hlutfall halda áfram að lækka fram til 2050.
Samtrygging
Aðild að lífeyrissjóði tryggir þér verðtryggðan lífeyri til æviloka óháð kyni. Með samábyrgð og þátttöku allra tryggjum við einnig afkomu þeirra sem verða fyrir áfalli vegna sjúkdóms eða slyss og afkomu fjölskyldunnar við fráfall. Samtryggingin byggir á að lífeyrissjóðurinn tryggir alla sjóðfélaga gegn sama hlutfallslega iðgjaldi óháð kyni, aldri, áhættu í starfi eða öðrum þáttum sem hafa áhrif á örorkulíkur eða dánarlíkur viðkomandi.
Skylduaðild
Aðild að lífeyrissjóði er hluti af umsömdum kjörum hverrar starfsstéttar eða starfshóps. Skylduaðildin er forsenda þess að við getum dreift áhættunni jafnt, að allir séu með, og forðast mismunun og tryggt öllum lífeyri, óháð efnahag og aðstæðum. Öryggið sem almennu lífeyrissjóðirnir veita kostar lítið í samanburði við ýmsar tryggingar sem bjóðast til kaups. Þátttaka í lífeyrissjóðakerfinu hefur verið mjög góð og því dreifist áhættan á mjög marga. Almennu lífeyrissjóðirnir eru því raunverulegt samtryggingarkerfi.
Sögulegt ágrip
Einn af mikilvægustu áföngunum í baráttu íslenskrar verkalýðshreyfingar er kjarasamningur ASÍ og VSÍ frá 1969 um stofnun almennra lífeyrissjóða fyrir alla launamenn. Samningurinn skyldar launagreiðanda til þess að taka þátt í að greiða í lífeyrissjóð fyrir starfsmenn sína og tryggja þeim þannig lífeyrisréttindi við starfslok vegna aldurs eða örorku og sömuleiðis eftirlifandi maka og börnum lífeyrir við andlát.
Stjórnkerfi lífeyrissjóðanna
Stjórnkerfi lífeyrissjóðanna á almennum vinnumarkaði endurspeglar þá áherslu í kjarasamningnum um lífeyrismál að rekstur og gæsla sjóðanna sé á sameiginlegri ábyrgð atvinnurekenda og launafólks. Stjórnir sjóðanna eru ávallt skipaðar fulltrúum stéttarfélag og samtaka atvinnurekenda að jöfnu og fulltrúar þessara aðila skiptast á að hafa á hendi formennsku í stjórninni.
Tryggingafræðileg staða lífeyriskerfisins
Aðeins þeir lífeyrissjóðir sem eru gjaldhæfir hafa heimild til að taka við iðgjöldum frá sjóðfélögum. Gjaldhæfur sjóður er sá sem á eignir sem eru a.m.k. jafn miklar og skuldbindingar sjóðsins. Þegar gjaldhæfi er metið eru skoðaðar allar lífeyrisskuldbindingar viðkomandi sjóðs þ.e. bæði þau réttindi sem núverandi sjóðfélagar hafa nú þegar áunnið sér og framtíðarskuldbindingar sem eru þau réttindi sem núverandi sjóðfélagar munu að líkindum vinna sér inn þar til þeir hefja töku lífeyris.
Af hverju get ég ekki valið mér lífeyrissjóð til að borga í?
Nýlega stóðu samtök sem kalla sig „Samtök um betri lífeyrissjóði“ fyrir könnun á viðhorfi landsmanna til þess að geta valið sér lífeyrissjóð. Nú þekki ég ekki þessi samtök og veit ekki hverjir standa að þeim, en tek eftir því að talsmaður þeirra er einn af eigendum og framkvæmdastjóri Domino´s hér á landi. Hins vegar var formaður efnahags- og viðskiptanefndar fljótur að taka upp þráðinn og skrifaði grein í Morgunblaðið strax í kjölfarið og minnti á þingmannafrumvarp sitt frá haustinu 2015, þar sem lagt var til að Alþingi gripi inn í alla kjarasamninga og breytti ákvæðum um kjör stjórna lífeyrissjóða. Ég vona að fólk fyrirgefi mér en það virkar ekki alveg sannfærandi á mig þegar eigendur eða stjórnendur fyrirtækja, hvað þá stjórnmálamenn sem gefa sig út fyrir að vera talsmenn þröngra fyrirtækjahagsmuna, koma fram í því hlutverki að vera talsmenn hagsmuna almennings.