Stefna Alþýðusambands Íslands í atvinnumálum er afrakstur af vinnu atvinnumálanefndar ASÍ. Við vinnuna er leitað álits og ráðgjafar fjölda aðila innan hreyfingarinnar og utan. Eftir að stefnan lá fyrir í meginatriðum vorið 2007 var hún kynnt á opnum fundi. Í framhaldi af því var hún samþykkt í miðstjórn sambandsins hinn 16. maí 2007.

Atvinnustefna ASÍ er sett fram í fjórum liðum:

  1. Forsendur
  2. Grunnstoðir atvinnulífsins
  3. Nýting og vernd náttúruauðlinda
  4. Sköpun þekkingar

Forsendur

Mikilvægt er að fyrir liggi hvert við viljum stefna með uppbyggingu atvinnulífsins og um leið hvaða mælikvarða nota skal á árangur. Eitt helsta markmiðið snýr að því að auka alþjóðlega samkeppnishæfni og skapa störf sem standa undir góðum lífskjörum. Þetta markmið má þó ekki skyggja á eðlileg siðferðileg viðmið eða gildi um jöfnuð, réttlæti og ábyrgð.

Hnattvæðing

Til að stuðla að heilbrigðri alþjóðlegri samkeppni – og til að koma í veg fyrir samkeppni grundvallaðri á félagslegum undirboðum – er nauðsynlegt að auka alþjóðlega samvinnu og reglusetningu um vinnumarkað, fjárfestingar og viðskipti. Stjórnvöld eiga að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir setningu reglna sem tryggja ábyrga og réttláta hnattvæðingu. Þá þarf að tryggja almenningi möguleika á að velja eða hafna vörum, vinnustöðum eða birgjum m.a. á grundvelli upplýsinga um félagslega ábyrgð fyrirtækja.

Aðlögun

Þróun í atvinnulífinu getur haft í för með sér tímabundna erfiðleika fyrir einstök heimili, fyrirtæki eða byggðarlög. Til að gæta réttlætis og stuðla að víðtækri sátt þarf að gefa öllum tækifæri á að laga sig að breytingum. Í þessu tilliti er einkar mikilvægt að tryggja virka upplýsingamiðlun svo og samráð og samningaviðræður á öllum stigum breytinga, hvort sem um er að ræða skipulagsbreytingar eða tækniinnleiðingu. Styrki vegna aðlögunar á helst að útfæra með almennum aðgerðum, t.d. gegnum skatta- og velferðarkerfið. Ef þörf er á sértækum aðgerðum eiga þær að vera tímabundnar, gagnsæjar, óframleiðslutengdar, miða að atvinnusköpun, vera árangursríkar með tilliti til kostnaðar og samræmdar að hinu almenna velferðarkerfi.

Grunnstoðir atvinnulífsins

Með grunnstoðum atvinnulífsins er m.a. átt við samgöngu-, fjarskipta- og raforkukerfin. Taka verður af allan vafa um að uppbygging þessara grunnstoða á ekki að snúast um kyrrstöðu heldur um eðlilegar breytingar sem samræmast þróun nútíma atvinnuhátta og sköpun starfa sem standa undir góðum lífskjörum. Við gjaldtöku vegna aðgangs að grunnstoðunum þarf að samræma sjónarmið um hagkvæmni, jöfnun tækifæra, öryggi og gæði. Ef nýta á markaðsöfl til að hanna, byggja upp, fjármagna eða reka grunnstoðir atvinnulífsins þarf að tryggja að arðsemiskrafa fyrirtækja skyggi ekki á félagsleg markmið.

Byggðaþróun

Styrkja skal stöðu landshlutakjarna, þ.e. þess byggðarkjarna innan landshluta sem hefur mest aðdráttarafl fyrir fólk, bestu möguleikana til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu og sem er best sett til að þjónusta nærliggjandi héruð. Í kringum slíka kjarna skal skilgreina eðlileg þjónustusvæði m.t.t. ástands samgöngumála, fjarskipta, orkudreifingar og annarra grunnstoða. Virkja skal hagsmunaaðila í héraði til uppbyggingar atvinnulífsins, t.d. með því að skapa þeim samstarfsgrundvöll á vettvangi klasasamstarfs og vaxtarsamninga.

Samgöngumál

Vaxandi þungaflutningar um vegi landsins hafa skapað alvarleg vandamál, m.a. minna öryggi vegfarenda og aukið slit á vegum. Ljóst er að á þessu sviði ríkir ekki jafnvægi milli sjónarmiða um hagkvæmni, jöfnun tækifæra, öryggis og gæða. Brýnt er að finna lausn á þessum vanda sem fyrst.

Fjarskiptamál

Virkja þarf nýjungar í upplýsingatækni þannig að Ísland komist í fremstu röð meðal þjóða í hagnýtingu hennar. Mjög mikilvægt er að tryggja öruggan aðgang að háhraðatengingum til gagnaflutninga og samskipta á sviði vísinda, þjónustu og viðskipta innanlands og milli landa á samkeppnishæfu verði.

Nýting og vernd náttúruauðlinda

Til náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar teljast m.a. nytjastofnar á Íslandsmiðum, auðlindir á /í /eða undir hafsbotninum (utan netalaga) svo og náttúruauðlindir í þjóðlendum. Á grundvelli stefnu um nýtingu og verndun náttúruauðlinda geta stjórnvöld veitt heimild til nýtingar á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar gegn gjaldi að því tilskyldu að nýtingarrétturinn sé tímabundinn eða að honum megi breyta. Við útgáfu nýtingarleyfa á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar skal m.a. hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

Leyfin skulu veitt á grundvelli hlutlægra viðmiðana sem gerð eru opinber í auglýsingum.

Setja skal ströng skilyrði fyrir veitingu leyfanna, m.a. um að áætlanir um rannsóknir og nýtingu séu í samræmi við stefnu um nýtingu og vernd auðlinda, að þær uppfylli kröfur um umhverfismat og skipulag og gangi ekki gegn reglum um réttindi launafólks, laun og vinnuvernd.

Gegn leyfum komi endurgjald; í fyrsta lagi vegna kostnaðar ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlinda (þjónustugjald); í öðru lagi til að tryggja þjóðinni hlutdeild í umframarði sem nýting auðlinda í þjóðareign skapar (auðlindagjald); og í þriðja lagi, þar sem það á við,til að tryggja hagkvæma nýtingu (umhverfisskattur).

Gæta ber hófs við beitingu eignarnámsheimilda og tryggt verður að vera að efnisleg skilyrði um almannaþörf sem og öll formleg skilyrði séu uppfyllt.

Landbúnaður

Verulegar framfarir hafa orðið í landbúnaði á síðustu árum. Framboð menntunar í greininni hefur aukist og ýmiss konar hagræðing og nýsköpun átt sér stað. Miklir möguleikar eru fyrir áframhaldandi þróun landbúnaðar og matvælaiðnaðar í landinu, t.d. með markaðsstarfi á grundvelli ímyndar um hreinleika og hollustu. Til að losa sem best um þessa sköpunarkrafta þarf að endurskoða núverandi styrkjakerfi í landbúnaði. Stefna ber að umbreytingu úr tollvernd, framleiðslutengdum styrkjum og opinberri verðlagningu yfir í beinar óframleiðslutengdar greiðslur í samræmi við viðmið ASÍ um aðlögun vegna atvinnuþróunar (sbr. kafli hér að framan um aðlögun).

Sjávarútvegur

Núverandi afskipti af sjávarútvegi (kvótakerfið) stuðlar í meginatriðum að hagkvæmri sókn í leyfilegan heildarkvóta. Stjórnvöld fara með eignarréttinn yfir auðlindinni í umboði þjóðarinnar. Þetta þýðir m.a. að þeim ber að ákveða heildarkvóta út frá vísindalegum niðurstöðum um afkomu stofna.

Orkunýting

Núverandi opinber afskipti af uppbyggingu orkuiðnaðar eru um of handahófskennd. Það er sjálfsagt að nýta þá vatnsorku og jarðhita sem landsmenn eiga til uppbyggingar á samkeppnishæfu atvinnulífi. Það væri hins vegar óskynsamlegt að veita leyfi fyrir frekari nýtingu áður en stefna um nýtingu og verndun auðlinda liggur fyrir.

Sköpun þekkingar

Stjórnvöld, skóli og atvinnulíf þurfa að taka höndum saman um uppbyggingu skilvirks stuðningskerfis við rannsóknir, tækniþróun og atvinnuuppbyggingu. Þekkingarsetur í landshlutakjörnum tengi starfsemi atvinnuþróunarfélaga, vinnumarkaðsráða, símenntunarmiðstöðva o.s.frv. Gera þarf stéttarfélögum kleift að taka virkan þátt í starfssemi þekkingarsetranna – en stéttarfélögin gegna mikilvægu hlutverki í að byggja upp mannauð, m.a. í gegnum samninga um kjör, vinnuaðstæður og aðkomu þeirra að mennta- og velferðarmálum. Þau gegna einnig mikilvægu hlutverki við þróun vinnumarkaðsaðgerða sem miða að því að aðstoða fólk við að finna starf við hæfi.

Rannsóknir

Auka þarf framlög til rannsókna og þróunar. Tryggja verður að fjármagn sé nýtt sem best. Í því skyni þarf að auka vægi samkeppnissjóða og stuðla að samfellu og gagnsæi í starfsháttum þeirra. Þá er mikilvægt að árangur af framlögum sé metinn reglulega.

Fyrirtækin

Huga þarf að því hvernig hægt er að beita efnahagslegum hvötum (skattaívilnunum, ábyrgðum, umbunarkerfi o.s.frv.) jafnhliða beinni fjármögnun til að örva nýsköpun og vöxt sprotafyrirtækja.

Mannauðurinn

Leggja þarf meiri áherslu á raun- og tæknigreinar í grunn- og framhaldsskólum; nám á að vera bæði fræðilegs eðlis og starfsmiðað í háskólum; rannsóknir eru nauðsynleg stoð við kennslu á háskólastigi.

Nýsköpun í atvinnulífinu og örar tæknibreytingar kalla á að einstaklingarnir endurnýi stöðugt þekkingu sína og færni. Því er mikilvægt að símenntun fyrir launafólk verði efld til muna og hún gerð markvissari. Slíkt þarf að gera út frá þörfum einstaklingsins fyrir aukna þekkingu og einnig út frá þörfum atvinnulífsins fyrir meiri og markvissari þekkingu og hæfni í starfi. Samfélagið þarf að hvetja einstaklingana til að sækja sér slíka menntun.

Treysta þarf og efla þann þátt í starfsemi Vinnumálastofnunar, svæðisvinnumiðlana og símenntunarmiðstöðva sem lítur að náms- og starfsráðgjöf. Sú starfsemi miði ekki aðeins að því að mæta þörfum námsmanna – heldur einnig annarra hópa sem treysta þurfa stöðu sína á vinnumarkaði.