Öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum er grundvallarþáttur í velferð launafólks. Verkalýðshreyfingin hefur frá upphafi látið húsnæðismál til sín taka. Mest áberandi eru áhrif hennar á uppbyggingu verkamannabústaða og síðar félagslegs íbúðar­húsnæðis annars vegar þegar íslenskt samfélag tók stökk inn í nútímann á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar og aftur í kjölfar samdráttar og byggðaröskunar á sjötta og sjöunda áratugnum.

Enn hafa skapast þær aðstæður sem leiða til þess að verkalýðs­hreyfingin verður að láta til sín taka. Stórfelld byggðaröskun samfara óheppilegum breyt­ingum á félagslega húsnæðiskerfinu hefur leitt til viðvarandi skorts á íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði, hvort heldur um er að ræða eignar- eða leiguhúsnæði. Stefna verkalýðshreyfingarinnar í húsnæðismálum verður að taka tillit til breyttra aðstæðna í efnahagslífi og á fjármálamarkaði þar sem horfið hefur verið frá úthlutun fjármagns á niðurgreiddum vöxtum og draga jafnframt lærdóm af því sem miður hefur farið.

Áherslur ASÍ:

  • ASÍ telur öruggt íbúðarhúsnæði stuðla að velferð fjölskyldunnar og stöðugri og betri uppeldisskilyrðum fyrir börn launafólks.
  • ASÍ telur að öruggt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum sem stillt verði af í samræmi við getu og þarfir létti óhóflegu vinnuálagi af launafólki og skapi þeim tíma og tækifæri til jafnari fjölskylduábyrgðar, aukinnar menntunar, fjölbreyttari tækifæra og fyllra lífs.
  • ASÍ telur að hvergi megi slaka á í kröfum um gæði og stærð íbúðarhúsnæðis. Óvandað íbúðarhúsnæði, of lítið íbúðarhúsnæði eða uppbygging sérgreindra leiguhverfa vinnur gegn þeim markmiðum sem ASÍ vill vinna að í þágu launafólks.
  • Vegna breyttra aðstæðna og skilyrða í efnahagslífi þjóðarinnar á síðustu árum telur ASÍ að leita beri fjölbreyttra og nýrra úrræða sem annað af tvennu tryggi launafólki tækifæri til þess að eignast eigið íbúðarhúsnæði eða til þess að eiga kost á góðu og öruggu leiguhúsnæði.

Helstu verkefni ASÍ:

  • Að taka og eiga frumkvæði í mótun og endurreisn félagslegs íbúðarkerfisins.
  • Að beita sér fyrir því að byggt verði upp varanlegt og traust húsnæðiskerfi.
  • Að eiga samstarf og samvinnu við stjórnvöld í málum er varða húsnæðismál og sem ASÍ telur horfa til heilla fyrir launafólk.
  • Að beita sér fyrir því að teknir verði upp stofnstyrkir í stað niðurgreiddra vaxta til leigufélaga á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka, þ.m.t. húsnæðissamvinnufélaga og lífeyrissjóða, einstaklinga eða fyrirtækja sem kjósa að kaupa, byggja, eiga og reka almennt eða sérhæft leiguhúsnæði.
  • Að beita sér fyrir því að lánveitingar til byggingar á leiguhúsnæði verði auknar verulega.
  • Að beita sér fyrir því að skattlagningu húsaleigubóta verði hætt án þess að til lækkunar þeirra komi.
  • Vegna þess mikla uppsafnaða húsnæðisvanda sem nú er orðinn vill ASÍ beita sér fyrir því að þeir sem verst eru settir félagslega og fjárhagslega, njóti forgangs við úthlutun húsnæðis.