Óheimilt að vinna í orlofi
Samkvæmt 12. gr. orlofslaga nr. 30/1987 er manni óheimilt að vinna fyrir launum í starfsgrein sinni eða skyldum starfsgreinum meðan hann er í orlofi og má setja um þetta nánari ákvæði í reglugerð. Slík ákvæði hafa ekki verið sett og ekki vitað til þess að þessu ákvæði hafi verið fylgt eftir, enda skortir í lögin refsiákvæði vegna brota á þeim. Þetta ákvæði hlýtur að verða að skoða sem viljayfirlýsingu löggjafans um að menn taki sér frí frá störfum ákveðinn tíma árs.
Spurt hefur verið að því hvort hægt sé að veita undanþágu frá þessu ákvæði þannig að starfsmenn fái að vinna orlofsmánuðinn á tvöföldu kaupi. Bannið, eins og það er sett fram í lögunum er fortakslaust og frá því engar undantekningar. Samkvæmt þessari reglu mættu menn vinna óskyld störf í orlofi á launum. Þar sem ekkert hefur á þetta reynt er óljóst hvernig túlka beri hugtakið skyldar starfsgreinar, hvort til dæmis kennari getur tekið að sér að vera flokksstjóri í unglingavinnu í orlofi sínu.
Fyrning orlofs
Í 14. gr. orlofslaga er fjallað um fyrningu orlofs. Kröfur á hendur vinnuveitenda skv. orlofslögum fyrnast eftir sömu reglum og kaupkröfur samkvæmt fyrningarlögum, eða á fjórum árum frá gjalddaga. Þótt fyrningarfrestur á orlofskröfum sé 4 ár er rétt að benda á að flutningur orlofs milli ára er óheimill skv. orlofslögum, og ennfremur kunna tómlætissjónarmið að vega þungt.
Orlofsréttur eftir látinn starfsmann
Um rétt til orlofs eftir látinn starfsmann eru hvorki ákvæði í orlofslögum né í kjarasamningum ASÍ. Samkvæmt almennum reglum hefur verið litið svo á að atvinnurekanda beri að greiða dánarbúi orlofslaunakröfu með sama hætti og önnur ógreidd laun.