Tilskipun 96/34/EB um foreldraorlof.
Tilskipunin á ensku.
Gildandi reglur.
Lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.
Markmið og gildissvið. Þessi tilskipun byggir á rammasamningi um foreldraorlof sem heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks á Evrópuvísu gerðu 14. desember 1995. Þessi samtök eru UNICE (nú BUSINESS EUROPE) fyrir atvinnurekendur, CEEP fyrir fyrirtæki með opinberri eignaraðild og ETUC sem er Evrópusamband verkalýðsfélaga.
Í samningnum er kveðið á um ákveðnar lágmarksreglur sem er ætlað að auðvelda vinnandi foreldrum að samræma skyldur sínar á vinnumarkaði þeim skyldum sem þau hafa sem foreldri. Samningurinn gildir um allt launafólk, karla og konur, sem eru í ráðningarsambandi eins og það er skilgreint í lögum, kjarasamningum eða samkvæmt venjum í hverju aðildarríki um sig.
Samningurinn tryggir launamönnum, bæði körlum og konum, einstaklingsbundinn rétt til foreldraorlofs vegna fæðingar eða ættleiðingar barns til að gera þeim kleift að annast barnið í að minnsta kosti þrjá mánuði upp að nánar tilteknum aldri, sem getur verið allt að átta árum, sem aðildarríki og/eða aðilar vinnumarkaðarins ákveða.
Til að tryggja að launamenn geti notið réttar síns til foreldraorlofs skulu aðildarríkin og/eða aðilar vinnumarkaðarins gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda launamenn gegn uppsögnum á þeirri forsendu að þeir hafi sótt um eða tekið foreldraorlof í samræmi við landslög, kjarasamninga eða venjur.
Launamenn skulu við lok foreldraorlofsins eiga rétt á að hverfa aftur að sama starfi eða, ef þess er ekki kostur, að samsvarandi eða svipuðu starfi í samræmi við ráðningarsamning eða ráðningarsamband. Þau réttindi sem launamaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs, haldast óbreytt til loka foreldraorlofsins. Við lok foreldraorlofs skulu þessi réttindi gilda, sem og breytingar sem kunna að hafa orðið á grundvelli landslaga, kjarasamninga eða venju.
___________________________________________________________
EFTA-dómstóllinn:
Mál er varða ákvæði þessarar tilskipunar hafa enn sem komið er ekki komið til kasta EFTA-dómstólsins.
Evrópudómstóllinn:
C-519/03. 14. apríl 2005. Framkvæmdastjórnin gegn Luxembourg.
Í þessu máli kemst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að stytta það þriggja mánaða tímabil sem foreldri á rétt á samkvæmt tilskipuninni og þeim rammasamningi sem hún vísar til, þegar rof verður á foreldraorlofi vegna annarra leyfa sem hlutaðeigandi starfsmaður er í, þ.m.t. fæðingarorlofi.
______________________________________
C-333/97. 21. október 1999. Lewen.
Jólabónus fellur hvorki undir gildissvið 11(2)(b) gr. tilskipunar 92/85/EB um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti, né 6. mgr. 2. gr. rammasamningsins við tilskipun 96/34/EB.