Krafa um ógreitt orlof er fjárkrafa og fyrnist sem slík á fjórum árum skv. fyrningalögum. Þeir hagsmunir launafólks, að geta notið hvíldar og orlofs frá störfum hafa hins vegar verið metnir þannig að standi vinnuveitandi ekki í skilum með greiðslu orlofslauna skv. 7. eða 8. gr. laga um orlof, nr. 30/1987, án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, getur launamaður eða hlutaðeigandi stéttarfélag í umboði hans snúið sér til Ábyrgðarsjóðs launa með orlofslaunakröfuna, sbr. lög nr. 88/2003.
Krafa skal studd fullnægjandi gögnum um fjárhæð hennar, svo sem launaseðlum, vottorði viðkomandi vinnuveitanda eða löggilts endurskoðanda hans.
Áskorun til vinnuveitanda og innlausn
Ábyrgðarsjóði launa ber að skora á vinnuveitanda að greiða kröfuna eigi síðar en þremur vikum frá dagsetningu áskorunar.
Komi fram andmæli af hálfu vinnuveitanda sem sjóðurinn telur réttmæt, svo sem um að krafan hafi þegar verið greidd eða hún niður fallin af öðrum ástæðum, skal sjóðurinn vísa kröfunni frá. Kröfu launamanns skal einnig vísað frá ef fram er komin beiðni um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda.
Að öðrum kosti skal Ábyrgðarsjóður launa innleysa kröfuna eigi síðar en fimm vikum frá dagsetningu áskorunar.
Um ábyrgð sjóðsins fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum c-liðar 5. gr., 6. gr. og IV. kafla laganna, eftir því sem við á. Þessi tilvísun þýðir að ákvæði laganna um hámarksábyrgð á orlofslaunakröfum gildir einnig í því tilviki sem hér um ræðir. Þá skal sjóðurinn við afgreiðslu orlofslaunakrafna beita undanþáguákvæði 10. gr. laganna, ef við á, en það hefur þau áhrif að forsvarsmenn fyrirtækja geta ekki krafið Ábyrgðarsjóð launa um greiðslu orlofs.
Aðfararhæfi og innheimta
Krafa Ábyrgðarsjóðs launa vegna innleystrar orlofslaunakröfu er aðfararhæf gagnvart vinnuveitanda. Þá skal innleyst krafa njóta sömu stöðu gagnvart þrotabúi vinnuveitanda og krafa launamanns hefði ella notið.
Á kröfu sem innleyst hefur verið samkvæmt reglum þessum reiknast dráttarvextir samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, fyrst 15 dögum eftir innlausn.
Eyðublað með orlofslaunakröfu
Sérstakt eyðublað hefur verið útbúið fyrir þessar kröfur og liggur það meðal annars frammi hjá stéttarfélögum. Eyðublaðið gerir ráð fyrir staðfestingu atvinnurekanda á réttmæti kröfunnar. Staðfesti hann kröfuna eða löggiltur endurskoðandi hans þurfa launaseðlar ekki að fylgja. Hafist ekki upp á atvinnurekanda, eða hann neitar einhverra hluta vegna að staðfesta kröfuna, þurfa launaseðlar að fylgja. Ef samtala orlofslauna er tilgreind nægir að senda síðasta launaseðil.