Ef öryggi eða heilbrigði konu í þessari stöðu er talið vera í hættu samkvæmt matinu ber atvinnurekanda að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi hennar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Verði því ekki við komið af tæknilegum eða öðrum ástæðum skal atvinnurekandi fela konunni önnur verkefni. Atvinnurekandi eða starfsmaður geta leitað umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um breytingu á vinnuskilyrðum, vinnutíma eða verkefnum. Þær breytingar sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma, eða breytingar á verkefnum, skulu ekki hafa áhrif á launakjör starfsmanns til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Með öðrum orðum heldur starfsmaður fullum launum og starfstengdum réttindum þrátt fyrir breytingarnar.