Vafi hefur þótt leika á því hvaða rétt launamaður eigi til launa meðan veikindi í orlofi vara. Fimm aðal skýringarkostir eru uppi.
Í fyrsta lagi að líta á veikindin eins og önnur bótaskyld veikindi og þá þannig að launamaðurinn hætti orlofstökunni og detti inn á veikindalaun skv. veikindaréttarákvæðum kjarasamninga eins og þau eru á hverjum tíma. Meginreglan væri þá greiðsla staðgengilslauna. Þeirra launa njóti launamaður þá daga sem hann á í veikindum en sé bótalaus eftir það og þar til veikindum líkur. – Að loknum veikindum hefur launamaður orlofstöku að nýju og líkur henni innan orlofsársins nema sérstaklega standi á. Hér væri því að meginstefnu til beitt reglum um veikindarétt með sérstökum rétti til frestunar orlofs.
Í öðru lagi að líta á veikindin eins og önnur bótaskyld veikindi og þá þannig að launamaðurinn hætti orlofstökunni og detti inn á veikindalaun skv. veikindaréttarákvæðum kjarasamninga eins og þau eru á hverjum tíma. Meginreglan væri þá greiðsla staðgengilslauna. Þeirra launa njóti launamaður þá daga sem hann á í veikindum en sé bótalaus eftir það og þar til veikindum líkur. – Jafnframt þá öðlist launamaðurinn rétt til viðbótarorlofstöku í jafnmarga daga og veikindin stóðu og skal viðbótarorlofið tekið innan orlofsársins nema sérstaklega standi á. Um væri að ræða fyrst og fremst veikindarétt og sérstakan orlofstökurétt en greiðsluréttur í þessu viðbótarorlofi myndi takmarkast við hið hefðbundna og áunna orlof. Hér væri því að meginstefnu til beitt reglum um veikindarétt með sérstökum rétti til launaðs eða ólaunaðs viðbótarorlofs. Frávikið felst fyrst og fremst í því að fyrir hvern einstakan veikindadag í orlofi komi viðbótarorlof, ógreitt.
Í þriðja lagi er sá kostur uppi að túlka þetta ákvæði þannig að um sé að ræða rétt til launaðs viðbótarorlofs í þá daga sem veikindin vara umfram 3 eða 6 daga. Laun í því orlofi væru þá hin föstu orlofslaun, þ.e. dagvinnulaun og greidd í þann tíma sem veikindin vara. Veikindalaunaréttur launamannsins væri þá óskertur þrátt fyrir veikindi í orlofi. Hér væri því að meginstefnu til beitt reglum um orlofsrétt að viðbættum sérstökum greiddum veikindarétti í orlofi.
Í fjórða lagi er hægt að blanda þessum reglum saman og þá þannig að launamaðurinn fái dagvinnulaun orlofsveikindadagana en jafnframt að þeir dagar sem hann nýtur þannig dragist frá heildar veikindarétti hans. Hér væri þá beitt eins þröngri skýringu á veikinda- og orlofsrétti og hægt er.
Í fimmta lagi er hægt að blanda þessum reglum saman og þá þannig að launamaðurinn fái veikindalaun orlofsveikindadagana en jafnframt að þeir dagar sem hann nýtur þannig dragist ekki frá heildar veikindarétti hans. Hér væri þá beitt eins rúmri skýringu á veikinda- og orlofsrétti og hægt er.
Samtök atvinnulífsins (SA) geta stuttlega um þennan rétt í bæklingi sínum frá 1990 og segir þar að launamaður eigi rétt á uppbótarorlofi á dagvinnulaunum en eigi ekki rétt á staðgengilslaunum. Vísað er til héraðsdóms frá 1985. Sá dómur er ekki leiðsögn nema að hluta þar sem þar var fjallað um greiðslurétt þegar fyrirtæki var lokað í orlofi og því enginn staðgengill að störfum. Ekki er getið um það í þessum skýringum SA hvort þessir greiddu orlofsveikindadagar dragist frá heildarveikindarétti launamannsins eða ekki en þannig munu þó ákvæðin vera túlkuð. Með öðrum orðum er eins þröngri skýringu fylgt og mögulegt er.
Ekki er hægt að fallast á skýringu SA og er ASÍ þeirrar skoðunar að fyrsta skýringin hér að framan sé sú sem beita á. Tilgangur þessa ákvæðis kjarasamninga er fyrst og fremst sá að tryggja launamanni að hann geti notið orlofsins heill heilsu og geti þannig snúið til vinnu eftir orlof, hvíldur og endurnærður. Megin tilgangur þess er ekki að búa til verulegan og aukalegan veikindarétt vegna þess að veikindi koma upp í orlofi en ekki á öðrum tímum ársins. Ákvæðunum hefði þá verið fundinn staður í veikindaréttarkafla kjarasamninga en ekki orlofshluta þeirra. Í veikindaréttarkafla kjarasamninga er auk heldur ekki greint á milli þess hvort veikindi koma upp í orlofi eða á öðrum tímum. Jafnframt þá verður að horfa til þess að laun greidd í veikindum eru tímabundinn réttur þar sem leitast er við að tryggja launamanni afkomu þrátt fyrir veikindi þó svo að takmörk séu sett á þennan rétt í tíma og hann trappaður niður þar til honum líkur og önnur bótaúrræði taka við.
Ýkt dæmi getur skýrt þetta nokkuð. A sem rétt til 24 daga orlofs á launum veikist á öðrum degi orlofs. Hann er veikur í 4 mánuði. Má líta svo á að A eigi rétt til dagvinnulauna í 4 mánuði, hann eigi síðan rétt til hefðbundins 24 daga orlofs og síðan 4 mánaða uppbótarorlofs, hvar af fyrstu 24 dagarnir eru greiddir skv. orlofslögum (orlofið sem hann tók aldrei) en næstu 4 mánuði sé hann í launalausu uppbótarorlofi. Hvað ef hann veikist síðan aftur í uppbótarorlofinu. Dettur hann þá inn á dagvinnulaun meðan þau veikindi standa en fari að svo búnu í uppbótarorlof sem hann átti eftir og að auki uppbótarorlof vegna veikinda í uppbótarorlofinu? Augljóst er að þessi skýring er fráleit. Á sama hátt er fráleitt að túlka þessi ákvæði það þröngt að þau feli í raun í sér þrengingu á gildandi veikindarétti launafólks. Dæmið væri þá þannig. A hefur áunnið sér 4 mánaða veikindarétt og 24 daga orlofsrétt. Hann veikist á öðrum degi orlofs og er veikur samfellt í 4 mánuði. Fyrirtækinu sem hann vinnur hjá er ekki lokað í sumarleyfi starfsmanna. Samkvæmt túlkun SA ætti A að detta inn á dagvinnulaun í 4 mánuði meðan orlofinu er frestað í stað þess að fá 1 mánuð á staðgengilslaunum, einn á fullu dagvinnukaupi og 2 á strípuðum dagvinnulaunum. Síðan færi hann í hefðbundið 24 daga orlof og væri búinn að tæma áunninn veikindarétt þegar hann snýr til baka til starfa. A hefði með öðrum orðum glatað verulegum launarétti vegna veikinda, einungis vegna þess að hann veiktist í orlofi en ekki á öðrum tíma. Báðar þessar skýringar eru augljóslega rangar. Hin rétta skýring er, að launamaður sem veikist í orlofi í meira en 3 eða 6 daga, telst fresta orlofstöku sinni meðan veikindin standa sé tilkynningaskyldu sinnt. Meðan veikindin standa nýtur hann launa í veikindum skv. veikindaréttarkafla kjarasamninga, bæði hvað varðar fjárhæðir og lengd launaréttar. Að loknum veikindum fer launamaðurinn í sitt hefðbundna orlof á orlofslaunum skv. ákvæðum orlofskafla kjarasamninga. Þeir veikindadagar sem greiddir eru skv. framansögðu dragast frá áunnum veikindadögum hans.