VINNURÉTTARVEFUR ASÍ

Brot á lögum 80/1938

Fyrsti töluliður 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 nær til brota á sjálfum lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt honum er Félagsdómi ætlað að dæma um tjón, sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.

Vinnustöðvun

Í Félagsdómi 27/1939 (I:35) kom til skýringar á því hvort dóminum bæri eingöngu að dæma brot vegna ólögmætra vinnustöðvana eða hvort ákvæðið tæki einnig til annarra brota á lögunum. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að greinin tæki til allra brota á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur hvort sem þau stafa af ólögmætum vinnustöðvunum eða öðru.

Í Félagsdómi 7/1949 (III:103) var deilt um það hvað fælist í orðunum ólögmætar vinnustöðvanir, hvort hér væri einnig átt við vinnustöðvanir, sem væru formlega og efnislega lögmætar en framkvæmd þeirra ólögmæt. Málavextir voru þeir að vinnustöðvun varð með þeim hætti að formaður verkalýðsfélags, sem átti í verkfalli kom því til leiðar með hótunum eða valdbeitingu að menn úr öðru verkalýðsfélagi lögðu niður vinnu, án þess að það félag ætti í verkföllum. Þessi stöðvun vinnu var af Félagsdómi ekki talin falla undir ákvæði 1. mgr. 44. gr., en telja yrði að þar sé átt við verkföll og verkbönn samkvæmt II. kafla laganna. Málinu var af þessum sökum vísað frá dómi. Málsatvik voru svipuð í Félagsdómi 19/1949 (III:118). Þótt vinnustöðvun væri lögmæt var framkvæmd hennar ólögmæt.

Þau mál sem Félagsdómur hefur dæmt með stoð í 1. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 eru langflest vegna brota á II. kafla laganna, sem fjallar um verkföll og verkbönn, um lögmæti vinnustöðvana, hvort rétt hafi verið til þeirra boðað, bæði formlega og eins hvort efnislegar forsendur hafi verið fyrir hendi, og að lokum hvort þeir sem vinnustöðvun beinist gegn hafi reynt að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda sem að vinnustöðvun stóðu, samanber 18. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Sjá einnig Hrd. nr. 48/2000.

Aðild að stéttarfélögum

Annar stærsti hópur mála samkvæmt 1. tl. 44. gr. eru mál vegna brota á 2. gr. laga nr. 80/1938 um að stéttarfélög skuli vera opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu, eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna. Eru mál þessi annað hvort þess eðlis að einstaklingum er neitað um inngöngu í stéttarfélag eða einstaklingar hafa kært til Félagsdóms brottrekstur úr stéttarfélagi. Mál hafa komið fyrir Félagsdóm þar sem deilt var um rétt stéttarfélags til inngöngu í stéttarsamband og var þeim heimiluð innganga í sambandið með dómi Félagsdóms.

Í Félagsdómi 4/1961 (V:88) voru málsatvik aftur á móti þau að Landssamband íslenskra verslunarmanna sótti um inngöngu í ASÍ. Ekki var talið komið fram að LÍV hefði þá starfslegu hagsmuni af inngöngu í ASÍ sem fyrirmæli 2. gr. laga nr. 80/1938gerðu ráð fyrir. Var málinu því vísað frá, þar sem 44. gr. heimilaði ekki að málið færi fyrir Félagsdóm.

Uppsögn trúnaðarmanns

Í nokkrum málum hefur verið fjallað um 11. gr. laga nr. 80/1938 um uppsögn trúnaðarmanns á vinnustað.

Atvinnukúgun

Önnur mál sem komið hafa til kasta Félagsdóms með stoð í 1. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 hafa til dæmis verið vegna 4. gr. laganna, þar sem atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum þeirra skuli óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum, vegna túlkunar á eðli félags, hvort það geti talist stéttarfélag í merkingu 1. gr. laganna og um lögmæti samninga einstakra verkamanna við atvinnurekendur á grundvelli 7. gr. laganna.

VEFTRÉ

Vinnuréttarvefnum er skipt upp í nokkra meginkafla sem hver um sig fjallar um flest sem viðkemur íslenskum vinnurétti, og umgjörð íslensks vinnumarkaðar.

  • Vinnuréttur
  • Um vinnuréttarvefinn