Í 13. gr. orlofslaga nr. 30/1987 segir: „Framsal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára er óheimilt.“ Ágreiningur rís stundum um túlkun þessa ákvæðis en það ber ekki að skilja fortakslaust þannig krafa starfsmanns um orlofslaun (fjárkrafa hans) falli niður hafi hann ekki fengið í orlof (frí frá störfum). Fyrstu lögin um orlof voru lög nr. 16/1943. Skv. þeim var orlof greitt með orlofsmerkjum. Framsal slíkra merkja og flutningur milli orlofsára var bannaður en þau innleysanleg á póststöðvum að fenginni uppáskrift launagreiðanda. Föstum starfsmönnum mátti hins vegar greiða hin venjulegu laun þá er þeir færu í orlof. Meirihluti launafólks á þessum tíma taldist ekki til „fastra starfsmanna“. Þessi lög féllu úr gildi með lögum 87/1971. Þá var byggt á því að orlof skyldi lagt á sérstaka orlofsreikninga sem greitt skyldi út af við orlofstöku en að föstum starfsmönnum mætti áfram greiða hin venjulegu laun sín og hlunnindi þá er þeir færu í orlof. Framsal orlofsfjár og flutningur á milli orlofsára var áfram óheimill en mælt fyrir um að orlofsfé sem ekki væri tekið út (af orlofsreikningi eða greitt af launagreiðanda) innan árs frá lokum orlofsárs skyldi renna sem aukaiðgjald launamannsins í lífeyrissjóð hans. Núgildandi orlofslög nr. 30/1987 leystu þessi lög af hólmi og í þeim er að finna áðurnefnda 13.gr. Meginregla þeirra er að orlofslaun eru kauptryggð og varðveitt í hendi launagreiðanda þar til launamaður fer í orlof. Í lögunum er áfram heimild um notkun orlofsreikninga en þeir skilgreindir sem undantekning. Út af þeim er greitt sjálfkrafa í lok hvers orlofsárs.
Skylda launagreiðanda um að skipa starfsmönnum sínum í orlof er mjög skýr en í 5.gr. laganna segir: „Atvinnurekandi ákveður í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt. Hann skal verða við óskum launþega um hvenær orlof skuli veitt, að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Að lokinni könnun á vilja launþegans skal atvinnurekandi tilkynna svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli.“ Atvinnurekandi sem vanrækir þessar skyldur sínar þ.e. tekur hvorki ákvörðun um orlof stafsmanna sinna, tilkynnir hana ekki eða tekur ófullnægjandi ákvörðun sem t.d. felur í sér að áunnið orlof er ekki að fullu tekið ber ábyrgð á því að greiða starfsmanni sínum orlofsféð ef hann er ekki tilbúinn til þessa að heimila honum honum að taka sér launað orlof í þá daga sem ekki voru teknir orlofsárið á undan eða fyrr, sé krafan ekki fyrnd sem fjárkrafa. Orlofsféð er varðveitt af launagreiðandanum sem ræður skipulagi vinnunnar og orlofstöku starfsmanna og fjarri lagi getur hann svipt starfsmenn sína óunnu orlofsfé, meira en 10% af kaupi síðasta orlofsárs, með því að vanrækja skipulagsskyldur sínar. Réttarstaða launagreiðanda og launamanns er mjög ójöfn í þessu sambandi og verður launagreiðandinn að bera hallan af því eins og venja er til.
Frá þessu kunna að vera réttlætanleg frávik og þá þegar viðkomandi launamaður er sá hinn sami og á að skipuleggja og mæla fyrir um orlofstöku sína. Hæstiréttur hefur talið að kröfur slíkra yfirmanna í fyrirtækjum um greiðslu ótekins orlofs geti fallið niður með vísan til 13.gr. orlofslaga sbr. Hrd. 376/2011 (forstöðumaður), Hrd. 440/2010 (framkvæmdastjóri) og 357/2016 (ritstjóri). Í Hrd. 83/2000 (framkvæmdastjóri) vísaði Hæstiréttur hins vegar til þess að launagreiðandi hefði ekki borið fyrir sig ákvæði 13.gr. orlofslaga og dæmdi framkvæmdastjóra ótekið orlof vegna fjögurra ára en eldri kröfur töldust fyrndar. Í Hrd. 357/2016 (ritstjóri) var ekki sérstaklega vísað til 13.gr. orlofslaga en tekið fram að vegna stöðu sinnar hefði ritstjóranum verið í lófa lagið að halda kröfu sinni fram þegar orlofsuppgjör lá fyrir ár hvert.
Í orlofslögum er þó að finna eina undantekningu frá banninu á flutningi orlofs milli orlofsára, þegar launamaður hefur vegna veikinda ekki getað fullnýtt sér orlofsrétt sinn, sbr. 2. mgr. 6. gr. Þá getur hann farið í orlof fram til 31. maí næst á eftir.
Í Hrd. 199/1981 reyndi á þetta ákvæði í máli sem aðallega fjallaði um rétt konu til þriggja mánaða fæðingarorlofs. Þar var einnig fjallað um greiðslu orlofs og flutning þess milli ára. Í héraðsdómi var því hafnað að draga frá orlofsrétti vegna 1. maí 1977 – 30. nóv. 1977 ofgreitt orlof árið á undan. Var vísað í 1. mgr. 13. greinar laga 87/1971 um orlof (eldri orlofslög) um að flutningur orlofsfjár milli ára væri óheimill, og því hafi vinnuveitandi ekki getað krafið konuna um endurgreiðslu ofgreidds orlofs sumarið 1976 og 1977. Hæstiréttur staðfesti þennan skilning.