Viðmiðunarreglugerð þessi geymir annars vegar ákvæði sem skuldbindandi eru skv. lögum ASÍ og hins vegar almenna viðmiðun um hentuga og lýsandi reglugerð fyrir sjúkrasjóði. Þau ákvæði reglugerðarinnar sem byggjast á lögum ASÍ eru skuldbindandi en þar er fyrst og fremst um að ræða 49.gr. laga ASÍ sbr. 12.gr. reglugerðarinnar. Í 49.gr. laga ASÍ segir – Sjá lög ASÍ.

1. gr. Nafn sjóðsins og heimili 

1.1 Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður NN, skammstafað Sjúkrasjóður NN. 

1.2 Sjúkrasjóður NN er stofnaður samkvæmt samningi NN og XX [eða] (Með tilvísun til laga nr. 19, 1. maí 1979 og sjóða félaga sem sameinaðir voru sjúkrasjóði.) 

1.3 Sjúkrasjóður NN er eign NN. Heimili hans og varnarþing er í BB. 

Gert er ráð fyrir að í stað NN komi nafn viðkomandi félags, í stað XX komi viðsemjandi/viðsemjendur félagsins og að í stað BB komi nafn þess sveitarfélags sem sjóðurinn er með varnarþing sitt í. Þeir sem nota seinni möguleikann, það sem er innan svigans, eru t.d. verslunarmannafélögin sem fengu sjúkrasjóði með lögum. Þá er rétt að minna á að sumir sjúkra – og/eða styrktarsjóðir urðu til með einföldum samþykktum í félögunum áður en samnings- eða lögbinding sjúkrasjóða varð að veruleika. Í þeim tilvikum gildir seinni hluti setningarinnar innan svigans. 

2. gr. Verkefni sjóðsins 

2.1 Verkefni sjóðsins er að veita sjóðsfélögum Sjúkrasjóðs NN fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa- og dánartilvikum. Sjóðsfélagar eru þeir sem greitt hafa, eða fyrir þá hafa verið greidd, iðgjöld til sjóðsins. 

2.2 Verkefni sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum sem snerta öryggi og heilsufar. 

Forgangsverkefni sjóðanna er greiðsla bóta vegna sjúkra- og slysatilfella. Geta einstakra sjóða getur síðan leitt til þess að fleiri verkefnum sé sinnt.  

3. gr. Tekjur 

3.1 Tekjur sjóðsins eru skv. kjarasamningi NN sbr. 7. gr. laga nr. 19/1979, samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins. 

3.2. Vaxtatekjur og annar arður. 

3.3 Gjafir, framlög og styrkir. 

3.4 Aðrar tekjur sem aðalfundur félagsins/sjóðsins kann að ákveða hverju sinni. 

4. gr. Stjórn og rekstur 

4.1 Stjórn sjóðsins skal kosin með sama hætti og stjórn NN (eða á aðalfundi NN eða á aðalfundi sjóðsins) og ber stjórnin ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins. 

4.2 Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við þau sjónarmið sem gilda skv. almennum stjórnsýslureglum. 

4.3 Heimilt er að fela skrifstofu NN fjárreiður og umsjón með sjóðnum. Þó skal halda bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum NN. 

4.4 Ávallt skulu liggja fyrir gögn um rétt einstaklings til greiðslu úr sjóðnum. 

Í greininni er gert ráð fyrir því að stjórn sjóðsins, sé kosin með formlegum hætti. Þá er gert ráð fyrir að hægt sé að kjósa sjóðnum stjórn með allsherjaratkvæðagreiðslu ef félagsstjórn er þannig kosin, á aðalfundi félagsins og á aðalfundi sjóðsins sé um sérstakan aðalfund sjóðsins að ræða. Jafnframt er ekkert því til fyrirstöðu, að stjórn félagsins sé jafnframt stjórn sjúkrasjóðs en fyrirkomulag þessa ræðst af lögum einstakra aðildarfélaga.  Síðasta möguleikanum er haldið opnum ef hugsanlega yrði um sameiningu sjúkrasjóða að ræða og því þyrfti að halda sjóðnum sér aðalfund. Þá er í greininni gert ráð fyrir að sjóðurinn starfi eftir almennum stjórnsýslureglum. Þá er í gr. 4.4 gert ráð fyrir að iðgjöld séu skráð á nafn hvers og eins og er það gert í ljósi hæstaréttardóms sem efnislega hefur þá þýðingu að sjóðsfélagsaðild að sjúkrasjóði sé óháð aðild að félagi því sem er vörsluaðili sjóðsins og byggist einvörðungu á greiðslum til sjóðsins. 

5. gr. Bókhald, reikningar og endurskoðun 

5.1 Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af félagslegum skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda fyrir aðalfund NN (aðalfund sjóðsins).  

5.2 Endurskoðun ber að framkvæma af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi í samræmi við góða endurskoðunarvenju sem í gildi er á hverjum tíma.  

5.3 Í ársreikningi eða skýringum með honum skal sundurliða sérstaklega kostnað vegna hvers og eins bótaflokks skv. 12.gr.  

5.4 Um bókhald, reikninga og endurskoðun fer að öðru leyti skv. viðmiðunarreglum um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda sbr. 4.mgr. 47.gr. laga ASÍ eins og þær reglur eru á hverjum tíma.  

Greinin byggir á 49.gr. sbr. 47.gr. laga ASÍ.  

6. gr. Úttekt óháðra eftirlitsaðila 

6.1 Ár hvert, eigi síðar en 31. maí, skulu endurskoðaðir ársreikningar sjóðsins sendir skrifstofu ASÍ. 

6.2 Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína. Stjórn sjóðsins skal senda miðstjórn ASÍ úttekt þessa með ársreikningi sjóðsins. 

6.3 Við mat á framtíðarstöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Sérstaka grein skal gera fyrir áhrifum á afkomu sjóðsins vegna ákvarðana skv. greinum 12.3 og 12.4. 

6.4 Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir aðalfund tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.  

Greinin þarfnast í sjálfu sér ekki skýringa en rétt er að benda á að gert er ráð fyrir að niðurstaða úr óháðri úttekt, sem gera ber á fimm ára fresti, fylgi ársreikningum til miðstjórnar ASÍ, en þá ber að senda miðstjórn, ár hvert, skv. 47. grein laga sambandsins. Til að lámarka kostnað við slíka úttekt er gert ráð fyrir að löggiltur endurskoðandi félagsins geti framkvæmt úttektina samhliða endurskoðun og ekki þurfi til þess sérstaka skoðun tryggingafræðings. Þá er gert ráð fyrir að sérstaklega sé kannað við þessa úttekt hver séu áhrif vegna greiðslna skv. greinum 12.3 og 12.4, á rekstrarafkomu sjóðsins. Þær greinar fjalla um styrki til sjóðsfélaga og stofnana sem ekki er hægt að tengja beinlínis upphaflegum markmiðum sjóðanna.  

7. gr. Ávöxtun sjóðsins 

7.1 Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti; 

a) í ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð 

eru með ábyrgð ríkissjóðs, 

b) með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum, 

c) í bönkum eða sparisjóðum, 

d) í fasteignum tengdum starfsemi sjóðsins,  

e) á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan sbr. 11.gr. viðmiðunarreglna um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda eins og þær eru á hverjum tíma sbr. 41.gr. laga ASÍ.  

8.gr. Ráðstöfun fjármuna 

8.1 a) Ávallt skal þess gætt að ráðstöfun fjármuna sjóðsins brjóti ekki í bága við tilgang hans eða verkefni. 

b) Þegar um er að ræða ráðstöfun fjármuna til verkefna sem ekki falla undir megintilgang sjóðsins með beinum hætti skal tryggt að um eðlilega ávöxtun þess fjármagns sé að ræða, sbr. a, b og c lið greinar 7.1. 

Í greininni er gert ráð fyrir að megintilgangur sjóðsins, þ.e. að greiða bætur til sjóðsfélaga þegar launagreiðslum atvinnurekanda lýkur, sé hafður að leiðarljósi við ráðstöfun fjármuna sjóðsins og sé um að ræða ráðstöfun fjármuna sem ekki falla undir slíka skilgreiningu þá sé það tryggt að eðlileg ávöxtun sé af því fjármagni sem þannig er varið.  

9. gr. Grundvöllur styrkveitinga úr sjúkrasjóði 

9.1 Rétt til styrkveitinga úr sjóðnum eiga þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. þó 10. gr. 

9.2 Einungis þeir sem sannanlega greiða eða er greitt af til sjóðsins og verið er að greiða fyrir til sjóðsins þegar réttur til aðstoðar myndast. 

9.3 Þeir sem greidd hafa verið af til sjóðsins 1% iðgjöld í a.m.k. 6 mánuði.  

9.4 Hafi verið fullgildur aðili í sjúkrasjóði annars félags innan ASÍ þar til hann byrjar greiðslu til sjóðsins, sbr. 10. gr. 

9.5 Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd. 

Svo sem þessi grein ber með sér er gert ráð fyrir að grundvöllur þess að einstaklingar geti notið styrkja frá sjóðnum sé að þeir hafi, eða af þeim hafi verið, greitt til sjóðsins. Afleiðing þessarar túlkunar er að óheimilt er að greiða öðrum út úr sjóðnum. Réttindi úr sjúkrasjóði verða þannig ekki keypt með afturvirkum greiðslum. Þó ber að taka tillit til þess ef iðgjöld skila sér ekki frá atvinnurekanda þrátt fyrir að þau komi fram á reglulega útgefnum launaseðlum. Með því er átt við að ekki er nægilegt að framvísa launaseðlum sem útbúnir eru eftir á og jafnframt að um samtímagreiðslu launa hafi verið að ræða. Sjóðfélaginn má þá ætla að þeim sé skilað. Þetta er svipuð regla og gildir um lífeyrissjóðina og því ekki fráleitt að sjúkrasjóðir taki upp svipaða reglu og lífeyrissjóðirnir, að senda sjóðfélögum regluleg yfirlit. Þessi túlkun hefur þá afleiðingu að t.d. þeir sem einhverra hluta vegna hafa ekki greitt til sjúkrasjóðsins en hafa greitt félagsgjald eiga ekki rétt til styrkja úr sjóðnum. Til að mæta þessu gætu félög sem taka við félagsgjöldum án þess að greitt sé til sjúkrasjóðs greitt hluta þeirra félagsgjalda til sjúkrasjóðsins. Til að taka á þessu atriði mætti bæta við greinina sem 8.6 eftirfarandi texta. „Félagsmenn NN sem greiða félagsgjald, en greiða ekki til sjúkrasjóðsins, geta ekki öðlast rétt til greiðslna úr sjóðnum nema stéttarfélagið tryggi greiðslur til sjúkrasjóðsins með hluta inn heimtra félagsgjalda. „Greinin 9.4 eins og hún er orðuð er miðuð við hefðbundinn launamann. Í þeim tilvikum þegar sjóðfélaginn er jafnframt launamaður í eigin fyrirtæki, óháð félagsformi, og ber sjálfur eða aðili nákominn honum, ábyrgð á skilum iðgjalda hafa sjúkrasjóðirnir mun meira svigrúm til ákvarðana um réttindi sem aflast á grundvelli iðgjalda í vanskilum en ella. Þeim væri þá heimilt að fella ábyrgð alfarið niður eða takmarka hana við réttindi skv. gr. 12.1 þ.e. kjarnaréttinn en hvorki aðrar bætur né styrki. 

10. gr. Samskipti sjúkrasjóða 

10.1 Sá sem öðlast hefur rétt til greiðslu sjúkra- og slysadagpeninga úr sjúkrasjóði eins verkalýðsfélags, öðlast þann rétt hjá nýjum sjóði skv. þeim reglum sem þar gilda eftir að hafa greitt í þann sjóð í einn mánuð, enda hafi hann fram að því átt rétt hjá fyrri sjóðnum. Sá sem öðlast hefur rétt til styrkja úr sjúkrasjóði eins aðildarfélags, öðlast rétt til styrkja hjá nýju aðildarfélagi skv. þeim reglum sem þar gilda eftir einn mánuð, enda hafi hann fram að því átt rétt hjá fyrra félaginu. Þegar sótt er um styrki í nýju aðildarfélagi skal umsækjandi leggja fram yfirlit um veitta styrki sem hann hefur þegið úr fyrra sjúkrasjóði sl. 36 mánuði. 

10.2 Vinni maður á fleiri en einum vinnustað og hafi verið greitt í fleiri en einn sjúkrasjóð þegar sótt er um greiðslu, skal umsækjandi greina frá því í hvaða sjóði hann hefur greitt og er heimilt að fresta greiðslu bóta þangað til fyrir liggur staðfesting annarra sjóða á því að umsækjandi hafi ekki sótt um greiðslur þaðan. Sjúkrasjóðurinn skal leita slíkrar staðfestingar og gefa síðan öðrum sjóðum yfirlit yfir þær bætur sem greiddar eru vegna umsækjandans, tegund og fjárhæð bóta. 

Grein 10.1 er í samræmi við 1.mgr. 49.gr. grein laga ASÍ um réttindi þeirra sem flytjast milli sjóða. Þau réttindi varða einungis sjúkra- og slysadagpeninga en annarra réttinda afla nýir sjóðfélagar skv. reglum þess sjóðs sem flust er í. Grein 10.2 er ætlað að koma í veg fyrir að hægt sé að sækja réttindi hjá mörgum sjóðum á grundvelli greinar 10.1. Gert er ráð fyrir að þeir sem greitt hafi til fleiri en eins sjóðs sæki réttindi sín til þess sjóðs sem síðast var greitt til. Jafnframt er ráð fyrir því gert að þeir sem eiga réttindi á fleiri en einum stað gefi upp hvar þeir eiga réttindi og heimili þeim sjóði sem sótt er um hjá að leita upplýsinga um réttindi hjá öðrum aðilum og hvort viðkomandi hafi nýtt þau réttindi að fullu. Rétt er að benda á það hér að nauðsynlegt getur verið að setja inn á umsóknareyðublöð texta sem heimilar sjóðunum að leita upplýsinga um réttindi sjóðfélaga þannig að umsækjanda sé ljóst þegar hann undirritar umsókn sína að hann með undirritun sinni gefi sjóðnum heimild til að leita slíkra upplýsinga. Síðari hluti gr. 10.1 um yfirfærslu réttinda til styrkja kemur til vegna breytinga á 49.gr. laga ASÍ á 45 þing sambandsins 2023.  

11. gr. Geymd réttindi 

11. 1 Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ, endurnýjaðan bótarétt þegar greitt hefur verið til sjóðsins í einn mánuð, hafi umsækjandi áður verið fullgildur sjóðfélagi. Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna veikinda eða af heimilisástæðum.  

11.2 Þeir sjóðfélagar sem fara í lögbundið fæðingarorlof halda áunnum réttindum sínum hefji þeir þegar að loknu fæðingarorlofi aftur störf á samningssviði aðildarfélaga ASÍ enda ákveði viðkomandi að viðhalda rétti sínum með greiðslu félagsgjalds í fæðingarorlofi.    

 Með gr. 11.1 þá er með henni verið að heimila þeim sem hverfa af vinnumarkaði af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í greininni rétt til þess að geyma réttindi sín sem endurnýjast eftir mánaðargreiðslu til sjóðsins innan 24 mánaða. Það er með öðrum orðum verið að koma í veg fyrir að þeir einstaklingar sem svo yrði ástatt um verði beittir þeim ákvæðum að þurfa að greiða til sjóðsins í 6 mánuði til að öðlast réttindi.Grein 11.2 endurspeglar meginreglu laga um varðveislu áunninna réttinda meðan á töku fæðingarorlofs stendur. Miðað er við að ekki sé tekið lengra fæðingarorlof en lögin gera ráð fyrir hverju sinni. Þeir sjóðfélagar sem taka lengra fæðingarorlof myndu geta fallið undir heimildarákvæði gr. 11.1 um heimilisástæður sem er heimildarákvæði og því í valdi hvers sjóðs fyrir sig.  

12. gr. Styrkveitingar  

12.1 Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum í 120 daga (4 mánuði), að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Slysadagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna skaðabótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. slysa af völdum vélknúinna ökutækja. 

12.2 Dagpeninga í 90  daga (3 mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.      

12.3 Dagpeninga í 90 daga (3 mánuði) vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.  

12.4 Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga sem nemi 360.000.- krónum m.v. starfshlutfall hans. Rétthafar bóta eru maki sjóðfélaga og börn hans undir 18 ára aldri. Bótafjárhæð miðast við vísitölu neysluverðs pr. 1.1 2017 og tekur sömu breytingum og hún. 

12.5 Daga fjölda greiddra dagpeninga skv. 12.1 lið, til þeirra sem greitt er hlutfallslega lægra iðgjald af en 1%, er heimilt að skerða í sama hlutfalli og iðgjaldið er lægra en 1%.  

12.6 Dagpeninga skv. 12.1, 12.2 og 12.3 er heimilt að miða við meðaltal heildarlauna á síðustu 12 mánuðum í stað síðustu 6 mánaða, hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á viðmiðunartímabilinu. Jafnframt er heimilt að ákveða hámark dagpeninga skv. 12.1, 12.2 og 12.3 sem þó sé ekki lægra en 250.000.- á mánuði miðað við launavísitölu pr. 1.7 2006 og tekur fjárhæðin sömu breytingum og hún.  

12.7 Réttur skv. 12.1, 12.2 og 12.3 endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju.  

12.8 Heimilt er stjórn sjóðsins að veita styrki til sjóðsfélaga í formi forvarnar- og endurhæfingarstyrkja og styrkja vegna sjúkra- og slysakostnaðar. 

12.9 Styrkir til stofnana og félagasamtaka skulu ákveðnir af stjórn sjóðsins hverju sinni skv. gr. 2.2. 

12.10 Við ráðstöfun fjármuna skv. 12.8 og 12.9 skal þess gætt að möguleiki sjóðsins til að standa við upphaflegar skuldbindingar sínar vegna sjúkdóma og slysa skerðist ekki. Í reglulegri úttekt á afkomu sjóðsins, skv. 6. gr., skal úttektaraðili skoða þennan þátt sérstaklega.  

Í þessari grein er að finna ákvæði laga ASÍ um lágmarksréttindi í sjúkrasjóðum og skýrir hún sig sjálf. Með alvarlegum veikindum maka í gr. 12.3 er átt við maka sem þarfnast sérstakrar umönnunar vegna alvarlegs sjúkdóms eða slyss þannig að hinn vinnandi maki neyðist til þess að leggja tímabundið niður launað starf sitt. Í grein 12.6 er heimilað að setja hámark á bætur. Með því er átt við hámarksfjárhæð að meðtöldum tryggingabótum og öðrum bótum sbr. 12.1 – 12.3. Með dagafjölda er átt við alla daga mánaðarins ( 7 daga vikunnar ) þ.a. að réttindi skv. gr. 12.1 eru 4 mánuðir, skv. 12.2 3 mánuðir og svo framvegis. Í grein loka málslið gr. 12.1 er fjallað um samspil bóta úr sjúkrasjóði við tilteknar tryggingar. Meginhlutverk sjúkrasjóðanna er að greiða bætur þegar samnings- eða lögbundnum rétti líkur eða bæta þann rétt í tiltekinn tíma og sem tiltekið hlutfall launa. Þegar bótaskylda vegna slyss eða atvinnusjúkdóms fellur á tjónvald og bætur reiknaðar skv. skaðabótalögum fást greiddar úr hendi hans eða á grundvelli ábyrgðatryggingar, bætist tjón að fullu, þar með talið tímabundið tjón. Í þeim tilvikum er það andstætt markmiðum sjúkrasjóðanna að þeir komi inn með greiðslu dagpeninga sem í uppgjöri eru síðan dregnir frá bótum til sjóðfélaga úr hendi tjónvalds eða ábyrgðartryggjanda hans. Til þess að brúa tímabundinn vanda tjónþolans dragi tjónvaldur eða ábyrgðatryggjandi uppgjör til hans, er sjúkrasjóði heimilt að veita sjóðfélaga tímabundið lán að sömu fjárhæð og bætur úr sjóðnum myndu ella nema. Við uppgjör þess láns væri heimilt að lækka endurgreiðslu í sama hlutfalli og sök er skipt hafi sök að einhverju leiti verið felld á sjóðfélaga. 

13. gr. Lausn frá greiðsluskyldu 

13.1 Ef farsóttir geisa getur sjóðsstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðsstjórn ákveðið að lækka um stundarsakir upphæð dagpeninga ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin. 

Líta ber á þessa grein sem neyðarrétt stjórnar sjóðsins til að losa hann undan skuldbindingum sínum. 

14. gr. Tilhögun greiðslna úr sjóðnum 

14.1 Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu (NN) og greiðir sjóðurinn allan kostnað sem af rekstri hans leiðir. 

14.2 Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um fyrirkomulag á greiðslu dagpeninga og aðra starfstilhögun. 

14.3 Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu hafa að leiðarljósi almennar stjórnsýslureglur um meðferð upplýsinga um umsóknir og afgreiðslu sjóðsins. 

14.4 Umsóknum skal skilað á því formi sem stjórn sjóðsins ákveður og þeim fylgi nauðsynleg vottorð sem tryggja réttmæti greiðslna. 

Greinin fjallar um almennar afgreiðslureglur fyrir sjóðinn. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn starfi í samræmi við almennar stjórnsýslureglur sem hefur þá þýðingu að stjórn og starfsmönnum eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar, svo sem að svara erindum skriflega og að taka til afgreiðslu umsóknir svo fljótt sem verða má. Æskilegt er að mótaðar verði ákveðnar reglur um hvenær umsóknir eru teknar til afgreiðslu og þeim svarað að afgreiðslu lokinni. 

15.gr. Fyrning bótaréttar 

15.1    Réttur til dagpeninga í veikinda og slysaforföllum skv. gr.12.1 og 12.4 fellur niður sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því rétturinn stofnaðist.  

15.2    Réttur til styrkja skv. reglugerð þessari fellur að öðru leyti niður sé þeirra ekki vitjað innan (X) mánaða frá því rétturinn stofnaðist.  

Í umræðum við breytingar á reglugerð þessari kom fram, að fyrningartími þessi hefur að jafnaði ekki verið styttri en 6 mánuðir og að algengur fyrningarfrestur séu 12 mánuðir. Í 124.gr. l. 30/2004 um vátryggingasamninga sem gildi tóku 1.1 2006 segir um bætur úr slysatryggingum: “Sá sem rétt á til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar glatar þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á ða því hefur ekki borist tilkynning um vátryggingaratburð með öðrum hætti.“ Þó svo að sjúkrasjóðirnir starfi ekki samkvæmt lögum um vátryggingasamninga er eðlilegt að sami frestur sé nýttur hvað varðar a.m.k. gr. 12.1.Sá réttur sem átt er við í 1.mgr. telst stofnast að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Sjúkrasjóðunum er síðan í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir ákveða þann frest sem virða bera vegna umsókna um m.a. styrki skv. 12.2, 12.3 eða aðra styrki sem þeir veita og ekki koma fram í viðmiðunarreglugerð þessari eins og t.d. styrki til líkamsræktar, vegna gleraugnakaupa og fleira þess háttar.    

16. gr. Endurgreiðsla iðgjalda 

16.1 Iðgjöld til sjóðsins endurgreiðast ekki. 

17. gr. Upplýsingaskylda 

17.1 Stjórn sjóðsins er skylt að upplýsa sjóðsfélaga um rétt þeirra til aðstoðar sjóðsins á aðgengilegan hátt m.a. með útgáfu bæklinga, dreifirita og/eða á heimasíðu félagsins. 

Hér er kveðið á um upplýsingaskyldu sjóðsstjórnar gagnvart sjóðsfélögum. Greinin er tilkomin vegna þess að nokkuð algengt virðist að sjóðsfélögum sé ekki ljós réttur sinn. Vert er að minna á að upplýsingaskyldan gildir gagnvart öllum sjóðfélögum, ekki einungis gagnvart félögum í því stéttarfélagi sem er vörsluaðili sjóðsins. 

18. gr. Breyting á fjárhæðum og styrkjum 

18.1 Stjórn sjóðsins skal leggja fyrir aðalfund breytingar á almennum reglum um fjárhæðir styrkja sem sjóðurinn greiðir. 

Ekki er heimilt að ákveða réttindi lægri eða takmarkaðri en greinir í 12.gr. Geti sjóður ekki staðið við lágmarksskuldbindingar skv. 49.gr. laga ASÍ er nú heimilt að öðrum skilyrðum uppfylltum að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu um sameiningu hans og eftir atvikum félagsins við annað félag eða sjúkrasjóð. Slík sameining getur einnig að sjálfsögðu ákveðist þó sjóðir geti staðið við allar skuldbindingar sínar.   

19. gr. Breytingar á reglugerðinni 

19.1 Breytingar á reglugerðinni verða aðeins gerðar á aðalfundi og þurfa þær að vera samþykktar með meirihluta greiddra atkvæða fundarins. Slíkrar tillögu skal getið í fundarboði. 

19.2 Breytingar á reglugerðinni skulu sendar ASÍ til staðfestingar þegar og þær hafa verið samþykktar á aðalfundi.  

Í greininni er gert ráð fyrir að breytingar á reglugerðinni, aðrar en breytingar á fjárhæðum, séu lagðar fyrir aðalfund sjóðsins/félagsins, þeirra getið í fundar-boði og að þær þarfnist stuðnings einfalds meirihluta  greiddra atkvæða á fundinum. Sé um sameinaðan sjúkrasjóð fleiri félaga að ræða myndi ákvæðið eiga við um að breytingar gætu t.d. verið gerðar í sambandsstjórn eða öðrum sambærilegum fundi, allt skv. ákvæðum í reglugerð viðkomandi sjóðs. Margir sjúkrasjóðir hafa kosið að binda breytingar á reglugerðum sínum við 2/3 hluta greiddra atkvæða og er þeim heimilt að halda þeirri framkvæmd áfram enda felst í aukin lýðræðisleg trygging. Breytingar skulu jafnframt sendar skrifstofu ASÍ og skulu standast lágmarksákvæði laga ASÍ. Geri þær það ekki skal ASÍ bregðast við tafarlaust. 

Upphaflega samþykkt á fundi miðstjórnar ASÍ þann 8. febrúar 2006. Samþykkt með áorðunum breytingum á fundi miðstjórnar ASÍ 8.5 2024 sbr. 2.mgr. 49.gr. laga ASÍ.