2025

Ungir Leiðtogar

Námskeiðið Ungir Leiðtogar haldið í þriðja sinn

Ungir leiðtogar er námskeið ætlað ungu fólki innan verkalýðshreyfingarinnar.

Áhersla er á að fræða þátttakendur um hreyfinguna, styrkja tengslanet og efla þá sem leiðtoga í lífi og starfi. Námskeiðið er sniðið að ungum félögum í verkalýðshreyfingunni, trúnaðarmönnum, starfsmönnum stéttarfélaga og öðru ungu fólki í trúnaðarráðum af íslenskum og erlendum uppruna.

Þrátt fyrir að ungt fólk (18-35 ára) sé stór hópur á vinnumarkaði er virkni þess lítil innan stéttarfélaga og aðkoma þess að stjórnum, þingum og ákvörðunartöku innan verkalýðshreyfingarinnar takmörkuð. Ungt launafólk glímir við ótal áskoranir á vinnumarkaði og mikilvægt er að rödd þess heyrist víða.

Námskeiðið samanstendur af þrem námslotum sem miða að því að styrkja ungt fólk í verkalýðshreyfingunni og gera því kleift að koma rödd sinni á framfæri, á vinnustaðnum, innan hreyfingarinnar og úti í samfélaginu. Með námskeiðinu gefst ungum félögum kostur á að öðlast fjölbreytta þekkingu á verkalýðshreyfingunni ásamt því að efla sig í ræðumennsku, framkomu og sjálfsstyrk. Síðast en ekki síst er námskeiðinu ætlað að styrkja enn frekar tengsl og samvinnu ungs launafólks þvert á starfsgreinar og landshluta.

Leiðbeinendur verða allt sérfræðingar, hver á sínu sviði, innan og utan verkalýðshreyfingarinnar.

Hvert stéttarfélag útnefnir sinn/sína þátttakendur og skráir til þátttöku hjá ASÍ.

Skráning fer fram hjá þínu stéttarfélagi.

Síðasti skráningardagur er 28. janúar 2025.

Stéttarfélag greiðir kostnað við þátttöku í námskeiði (150.000 kr).

Innifalið í námskeiðsgjaldi er:

  • Námsgögn
  • Hádegismatur og síðdegishressing (lota 1)
  • Kvöldmatur í Reykjavík (lota 1), eitt kvöld
  • Flug (til og frá Brussel) og gisting með morgunmat (Thon Hotel) í Brussel
  • Ferðir til og frá flugvelli í Brussel
  • Skoðunarferð um borgina
  • Kvöldmatur í Brussel (lota 3) – 1 kvöld

19.-21. mars

Fyrsta lota

kl. 9:00 – 16:00, Guðrúnartúni 1, 1. hæð

Í upphafi verður megin áhersla á að hrista hópinn vel saman, og kynna fyrir honum starfsemi verkalýðshreyfingarinnar og helstu baráttumál. Einnig verður skoðað hvað það þýðir að vera leiðtogi í hreyfingunni, hver er leiðtogi, hver hlutverk hans verða.

Á degi tvö verður tekin fyrir sú hæfni sem leiðtogi þarf til að ná sínum málum fram:
samskiptahæfni, rökstuðningur, frásögn, framkoma og framkoma í fjölmiðlum. Áhersla verður lögð á hvernig koma megi röddum ungs fólks á framfæri og hvernig stuðla megi að jákvæðum breytingum.

Þriðji dagur verður dagur framtíðarsýnar þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla samstöðu og tengslanet. Hvernig getur launafólk komið málum á dagskrá innan verkalýðsfélaga og hvernig getum við komið þeim á dagskrá á vettvangi Alþýðusambandsins.

Verkefni námskeiðsins verða sett í skemmtilegan búning og þátttakendum mun gefast tækifæri til að koma sínum baráttmálum á framfæri.

8. apríl og 13.maí

Önnur lota - Fjarfundir

2 x 2 klst. fjarfundir

Í annarri lotu verður áhersla lögð á verkefnastjórnun, s.s. hvað ber að hafa í huga við utanumhald og framkvæmd verkefna. Þátttakendum verður svo skipt í hópa og þeim útveguð verkefni.

21.-24. maí

Þriðja lota - Brussel

Þriðja lotan verður haldin í Brussel. Farið verður í heimsóknir til alþjóðlegra og evrópskra stofnana sem tengjast starfi verkalýðshreyfingarinnar.

Nákvæm dagskrá liggur ekki fyrir en stefnt er að því að fara til ETUC (Evrópsku verkalýðshreyfingarinnar), ETUI (fræðslumiðstöð ETUC) og EFTA ásamt einni eða tveimur heimsóknum til viðbótar.

Nánari upplýsingar veita:
Aleksandra Leonardsdóttir, aleksandra@asi.is
Bergþóra Guðjónsdóttir, bergthora@asi.is