1. Upphaf þings – Afgreiðsla kjörbréfa 

1.1

Forseti ASÍ setur þing og stjórnar því þar til þingforseti hefur verið kosinn. Skal forseti ASÍ standa fyrir kosningu hans.

1.2

Forseti skipar tvo skrifara, ef henta þykir, þar til skrifarar úr hópi sambandsþingafulltrúa hafa verið kjörnir. Skyldur skipaðra skrifara eru þær sömu og kjörinna.

1.3

Forseti skipar svo marga úr hópi þingfulltrúa og/eða starfsmanna sem hentugt þykir til talningar atkvæða vegna atkvæðagreiðslu um kjörbréf.

1.4

Þegar þing hefur verið sett skal kjörbréfanefnd skila tillögum sínum. Tillögur kjörbréfanefndar skulu liggja frammi og vera þingfulltrúum aðgengilegar í a.m.k. hálfa klukkustund áður en þær eru teknar til afgreiðslu.

Framsögumaður kjörbréfanefndar gerir grein fyrir tillögum nefndarinnar um hvort kosning og kjörgengi þingfulltrúa og varafulltrúa þeirra, skuli talin gild, sbr. VI. kafla laga ASÍ.

Forseti ber upp tillögu kjörbréfanefndar munnlega án þess að lesin séu einstök kjörbréf. Þó skal lesa þau kjörbréf sem lagt er til að hafnað verði og þar sem lagt er til að afgreiðslu verði frestað sbr. grein 1.7.

1.5

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður við afgreiðslu kjörbréfa.
Minnst 10 þingfulltrúar geta skriflega krafist leynilegrar atkvæðagreiðslu um gildi eins eða fleiri kjörbréfa.

1.6

Þingfulltrúar hafa full réttindi um afgreiðslu eigin kjörbréfa.

1.7

Þingfulltrúar geta samþykkt frestun á afgreiðslu einstakra kjörbréfa sé þörf nánari athugana á þeim.
Skulu hlutaðeigandi þingfulltrúar engan þátt taka í þingstörfum á meðan athugun fer fram og þar til afgreiðslu þeirra er lokið sbr. þó grein 1.6.

1.8

Kjörbréfanefnd starfar frá því hún er skipuð samkvæmt 32. grein laga ASÍ þar til ný nefnd hefur verið skipuð vegna næsta þings.

1.9

Nú hamla lögmætar ástæður (s.s. samgöngur eða veikindi) því að kjörbréf berist skrifstofu ASÍ á réttum tíma og skal kjörbréfanefnd þá fjalla um þau strax og við verður komið og sambandsþingið síðan afgreiða þau.

1.10

Eigi þingfulltrúar lögmæt forföll eftir að kjörbréf þeirra hafa verið afgreidd, sem sannan-lega gera þeim ókleift að rækja fundarstörf, skal kjörbréfanefnd þegar í stað fjalla um kjörbréf varafulltrúa í þeirra stað og sambandsþingið síðan afgreiða þau svo fljótt sem við verður komið. Varafulltrúi gegnir að svo búnu sambandsþingstörfum til sambandsþingloka.

1.11

Kjörbréf sem sambandsþingið hefur ákveðið með atkvæðagreiðslu að taka ekki gild, verða eigi borin upp til atkvæða eða tekin til umræðu aftur á sama sambandsþingi.

1.12

Þegar kjörbréf hafa verið afgreidd skal forseti sambandsins leggja fyrir inntökubeiðnir nýrra félaga.
Fyrir skal liggja bráðabirgðaafgreiðsla miðstjórnar samkvæmt 6. grein laga ASÍ.
Þegar aðild nýs aðildarfélags hefur verið samþykkt skal bera upp og afgreiða kjörbréf fulltrúa þess.

1.13

Aðgang að þingsal eiga þingfulltrúar, starfsmenn þingsins, sérstakir gestir þess og starfslið þinghússins.

2. Stjórn þingsins

2.1

Að lokinni afgreiðslu kjörbréfa og inntöku nýrra félaga skal kjósa þingforseta, 1. varaþingforseta og 2. varaþingforseta.

Fyrst skal kjósa þingforseta sem gengst fyrir kosningu varaþingforseta og fjögurra skrifara.

Rétt kjörinn þingforseti þarf að hljóta meira en helming greiddra atkvæða þeirra sem á fundi eru.

Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu skal kosið að nýju um þau tvö  sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð og ræður hlutkesti ef þau sem til greina koma hafa hlotið jafnmörg atkvæði við fyrri umferð.

Verður það þeirra þingforseti sem fleiri atkvæði fær þá.

Fái bæði jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti hvort verður þingforseti.

Sömu reglu skal fylgt við kosningu varaþingforseta.

Minnst 10 þingfulltrúar geta skriflega krafist leynilegrar atkvæðagreiðslu við kosningu þingforseta.

2.2

Þingforseti stjórnar fundi og sér um að allt fari fram með góðri reglu, tekur við öllum erindum til þingsins og skýrir frá þeim,dreifir til þingfulltrúa eða birtir á aðgengilegan hátt með rafrænum hætti.

2.3

Vilji þingforseti taka þátt í umræðum frekar en þingforsetastaða krefur þá víkur hann þingforsetasæti, en varaþingforseti tekur forsæti á meðan.

2.4

Hlutverk skrifara er að halda gerðarbók undir umsjón þingforseta og skal í henni getið allra mála, er rædd eru á fundum og úrslita þeirra.

Skrifarar skrá atkvæði við atkvæðagreiðslur og kosningar.

Sömuleiðis sjá þeir með þingforseta um að ályktanir séu skrásettar og áritar þingforsetinn eitt eintak hverrar ályktunar sem frumheimild.

Skrifarar skipta störfum á milli sín eftir samkomulagi við þingforseta.

2.5

Þingforseti skipar fólk til að annast dreifingu atkvæðaseðla.

Þingforseti skipar teljara úr hópi þingfulltrúa og/eða starfsmanna svo sem  þykir þurfa á hverjum tíma.

2.6

Allt talað orð á fundum skal hljóðritað í umsjón skrifara. Upptökurnar skulu varðveittar þar til fundargerð þings og samþykktir hafa verið gefnar út. Þá skulu upptökurnar afhentar Sögusafni verkalýðshreyfingarinnar.

3. Nefndir

3.1

Á sambandsþingum starfar dagskrárnefnd sem skipuð er forseta og varaforsetum sambandsins auk þingforseta og varaþingforsetum.
Forfallist forsetar sambandsins tilnefnir miðstjórn fulltrúa úr sínum hópi í dagskrárnefndina.

Dagskrárnefnd undirbýr dagskrá funda sem byggð skal á þeim málum sem lögð eru fyrir þing skv. 24 og 50. gr. laga ASÍ og gerir tillögur um þær málefnanefndir sem starfa á sambandsþinginu. Jafnframt skal hún gera tillögu um hver skuli stjórna störfum hverrar nefndar og um nefndarritara. Þingfulltrúar skrá sig starfa í einstökum nefndum og fara með atkvæðisrétt í störfum þeirra.

3.2

Á sambandsþingi skal kjósa kjörnefnd skipaða 9 fulltrúum, sem starfi milli sambandsþinga og þar til kosningu er lokið. Kjörnefnd skal leggja fram tillögur um uppstillingu til þeirra starfa sem þing kýs til nema annað sé tekið fram í þingsköpum þessum.

3.3

Sambandsþingið stofnar aðrar nefndir á hvaða stigi máls sem er, gefist tilefni til. Sé það gert áður en umræðum er lokið, skal umræðum frestað.

3.4

Nefndir skili skriflegu áliti sínu til þingsins og skal því dreift til þingfulltrúa skriflega eða það  birt á aðgengilegan hátt með rafrænum hætti.

Sé ekki eining um niðurstöðu nefndar geta þau sem að séráliti standa skipað sér frummælanda sem hefur sama rétt og frummælandi meirihluta við umræður á fundum, enda sé séráliti skilað skriflega og það stutt skriflega af ekki færri en 15 þingfulltrúum sbr. gr. 5.5.

4. Umræður

4.1

Hver þingfulltrúi sem taka vill til máls skal óska heimildar þingforseta samkvæmt þeim reglum sem þingforseti ákveður.
Ef tveir eða fleiri þingfulltrúar kveða sér hljóðs samtímis ákveður þingforseti í hvaða röð þeir tala.

4.2

Þingfulltrúi skal ávallt mæla úr ræðustól og jafnan víkja ræðu sinni til þingforseta og fundarins.

4.3

Forseti má taka til máls eins oft í umræðum um skýrslu forseta og hann óskar. Frummælendur meiri- eða minnihluta nefndar mega taka til máls þrisvar sinnum um málefni það er þeir flytja, að hámarki 10 mín. í senn.

Aðrir þingfulltrúar mega ekki tala oftar en tvisvar við sömu umræðu um sama mál og í 10 mínútur í senn.

Þó er jafnan heimilt að gera stutta athugasemd um atkvæðagreiðslu, fundarstjórn eða þingsköp.

Tillöguflytjanda er heimilt að taka til máls í lok umræðu um viðkomandi tillögu, þó ekki lengur en í 5 mínútur. Regla þessi gildir um einn einstakling úr hópi tillöguflytjenda séu tillöguflytjendur fleiri en einn.

4.4

Ef þingforseti telur umræðu dragast úr hófi fram getur hann lagt til að ræðutími frummælanda meiri- eða minnihluta nefndar verði eigi lengri en 5 mínútur.

Þá getur þingforseti hvenær sem er lagt til að umræðum skuli lokið á ákveðnum tíma.

Sambandsþingið afgreiðir tillögur þingforseta í þessu efni umræðulaust.

Þingfulltrúar geta borið fram slíka tillögu enda sé hún skriflega studd með undirritun ekki færri en 10 þingfulltrúa. Skal tillagan afgreidd umræðulaust.

4.5

Skylt er þingfulltrúum að lúta valdi þingforseta í hvívetna er að því lýtur að gætt sé góðrar reglu. Láti þingfulltrúar sem vikið hafa frá góðri reglu eigi segjast skal þingforseti víta þá og nefna til ástæður. Ef þingfulltrúi er víttur tvisvar á sama fundi getur þingforseti lagt til við fundinn að hann verði sviptur málfrelsi það sem eftir lifir fundar. Skal sú tillaga afgreidd umræðulaust.

5. Tillögur, lagabreytingar og atkvæðagreiðsla

5.1

Engar tillögur um mál á sambandsþingi er hægt að bera upp til atkvæða nema þeim hafi verið dreift skriflega til þingfulltrúa eða þær verið birtar á aðgengilegan hátt með rafrænum hætti. Í öllum málum samkvæmt kafla þessum ræður einfaldur meirihluti atkvæða nema lög ASÍ eða þingsköp þessi mæli fyrir á annan veg.

5.2

Um þau mál sem berast sambandsþingi skv. 24. og 50. gr. laga ASÍ skulu fara fram tvær umræður. Við fyrri umræðu skal gera grein fyrir tillögum og leggja fram og gera grein fyrir tillögum til breytinga á þeim ef einhverjar eru. Að svo búnu skal öllum tillögum vísað til viðeigandi málefnanefndar.

5.3

Miðstjórn er heimilt að efna til umræðu og ákvarðanatöku um tiltekin málefni án þess að bera fram tillögu eins og mælt er fyrir um í 5.1. Skal þá við fyrri umræðu fara fram opin hringborðsumræða þingfulltrúa. Starfsmenn þingsins skulu taka saman niðurstöður hringborðsumræðu. Sérstakri ritnefnd kjörinni af þinginu skal síðan falið að setja niðurstöður fram í ályktunar- eða tillöguformi sem kynntar verði í viðeigandi málefnanefnd þingsins og afgreiddar þar til annarrar umræðu.

5.4

Drög að ályktun eða tillaga sem málefnanefnd á sambandsþingi sendir frá sér til síðari umræðu telst ekki breytingartillaga heldur aðaltillaga og samhliða teljast allar tillögur úr fyrri umræðu niður fallnar.

Við síðari umræðu er þingfulltrúum heimilt í samræmi við gr. 5.5. að flytja breytingatillögur við drög að ályktun eða tillögu málefnanefndar.

Við síðari umræðu skal þingforseti bera tillögur upp í þeirri röð sem hann ákveður.

Séu fleiri en ein tillaga í sama máli skal þó fyrst bera upp þá tillögu sem lengst gengur.

5.5

Undir liðnum önnur mál er þingfulltrúum heimilt að taka upp hvert það mál sem þeir óska eftir umræðu um, önnur en þau sem þegar hafa hlotið afgreiðslu þingsins. Ekki er þeim þó undir þessum lið heimilt að bera fram tillögur til ályktunar um annað en að fela miðstjórn og/eða forsetum ASÍ að vinna að tilteknum verkefnum eða málefnum milli sambandsþinga. Um heimildir miðstjórnar fer skv. 24.gr. laga ASÍ.

Allar tillögur sem bornar eru fram skulu vera skriflegar, undirritaðar af tillöguflytjendum og skriflega studdar af ekki færri en 15 þingfulltrúum að tillöguflytjendum meðtöldum.

Ekki er heimilt að taka tillögu til umræðu fyrr en þingforseti hefur lýst henni. Komi upp ágreiningur um í hvaða nefnd ákveðin tillaga skuli rædd skal þingforseti leysa úr þeim ágreiningi með úrskurði.

5.6

Séu fleiri en einn flytjandi að tillögu getur hver og einn þeirra dregið sig til baka af tillögunni í heyranda hljóði.

Fari svo að  tillaga sé í heild sinni dregin til baka, getur hver sem er úr hópi þingfulltrúa gert slíka tillögu að sinni í heyranda hljóði á sama fundi og undirritað hana síðan til staðfestingar, enda sé aflað stuðnings úr hópi þingfulltrúa við hana að nýju sbr. gr. 5.5.

5.7

Ákvæði greinar 5.6. gilda ekki um tillögur þær sem tilskilinn stuðning þarf skv. þingsköpum þessum.

5.8

Efnislegar tillögur eru þessar:

  1. Aðaltillaga
  2. Breytingartillaga
  3. Viðaukatillaga

5.9

Við atkvæðagreiðslu skal fyrst bera upp breytingartillögu við aðaltillögu. Síðan skal bera upp aðaltillögu með áorðnum breytingum hafi breytingartillögur verið samþykktar.

Að öðrum kosti er aðaltillaga borin upp í upphaflegri mynd.

Þá skal bera upp viðaukatillögur.

5.10

Þær breytingartillögur sem lengra ganga skal bera upp á undan þeim sem ganga skemur.

Breytingartillögu sem kollvarpar eða breytir aðaltilgangi annarrar tillögu eða sem varðar önnur efnisatriði en tillaga hefur verið gerð um breytingu á, má þingforseti ekki taka til greina en því áliti sínu skal þingforseti lýsa fyrir fundi.

Til að breytingatillaga nái fram að ganga þarf hún að hljóta sama fjölda atkvæða eins og aðaltillagan þarf til þess að teljast samþykkt.

5.11

Forgangstillögur eru í þessari röð:

  1. Tillaga um að ganga þegar til atkvæða, sbr. þó grein 4.5.
  2. Tillaga um að vísa máli frá.
  3. Tillaga um að taka fyrir næsta mál á dagskrá.
  4. Tillaga um að fresta máli.
  5. Tillaga um að vísa máli til annars valds.

Tillögur undir 1. tl. má ekki ræða.

Um tillögur undir 2., 3. og 4. tl. má gera stuttar athugasemdir.

Um tillögur undir 5. tl. má gera stuttar athugasemdir en um málið sjálft gilda sömu reglur og um önnur efnisleg mál sem koma fyrir sambandsþingið.

5.12

Þingforseta er heimilt að bera tillögu upp í tveimur eða fleiri liðum en þó því aðeins að hver liður sé sjálfstæður og að skiptingin geri tillöguna ekki óljósa.

5.13

Tillögu, sem hefur verið felld, má ekki bera upp á sama fundi.

Með samþykki minnst ⅔ hluta atkvæða þingfulltrúa má þó taka málið upp á ný síðar á sambandsþinginu enda séu ¾ hlutar þingfulltrúa, þeirra sem eigi hafa boðað forföll til þingforseta, viðstaddir á fundi þegar slík tillaga er til afgreiðslu.

5.14

Ákvæði greinar 5.13. eiga ekki við um afgreiðslu kjörbréfa.

5.15

Atkvæðagreiðsla um tillögur fer fram með handauppréttingu.

Leynileg atkvæðagreiðsla fer fram ef þess er óskað skriflega og tillagan skriflega studd af minnst 10 þingfulltrúum.

Atkvæðagreiðslur við nafnakall leyfast ekki.

Heimilt er að viðhafa atkvæðagreiðslur með rafrænum hætti. Atkvæðaseðlar eru þá vistaðir á tölvu og atkvæði greidd með þar til gerðum búnaði. Meginreglur þingskapa þessara gilda um atkvæðagreiðsluna eftir því sem við á.

5.16

Engar atkvæðagreiðslur geta farið fram um tillögur nema á fundi sé staddur minnst helmingur þingfulltrúa sem ekki hafa boðað forföll sín til þingforseta sbr. þó grein 5.14.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er atkvæðagreiðslan lögmæt með þeim þingfulltrúum sem mættir eru til fundar, hafi þingforseti tiltekið og tilkynnt sérstakan tíma fyrir viðkomandi atkvæðagreiðslu með að a.m.k. 30 mínútna fyrirvara.

5.17

Þingforseti skipar teljara til talningar atkvæða úr hópi þingfulltrúa og/eða starfsmanna, svo marga sem henta þykir.
Jafnan skulu teljarar úr hópi þingfulltrúa, allt eftir því sem við á, vera skipaðir úr hópum andstæðra fylkinga á fundum.

5.18

Breyting á lögum ASÍ telst ekki samþykkt nema hún hljóti ⅔ atkvæða á fundi.

6. Kosningar

6.1

Kosningar í trúnaðarstöður skulu vera leynilegar á þingum Alþýðusambandsins.

Heimilt er að viðhafa kosningar með rafrænum hætti. Kjörseðlar eru þá vistaðir á tölvu og atkvæði greidd með þar til gerðum búnaði.

Meginreglur þingskapa þessara gilda um rafrænar kosningar eftir því sem við á.

6.2

Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, þó með eftirfarandi undantekningum.

  • A.m.k. helming greiddra atkvæða þarf til þess að ná löglegu kjöri í miðstjórn.
  • Ákvæði um kjör þingforseta, sbr. grein 2.1.

6.3

Komi ekki fram tillögur um fleiri en kjósa skal, skulu þau sjálfkjörin.

6.4

Þegar meirihluta greiddra atkvæða er krafist vegna kosninga í trúnaðarstöður og það atkvæðamagn fæst ekki í fyrstu umferð, skal kosið að nýju um þau sem ekki náðu kosningu.

Verði kosningu þá heldur ekki lokið, skal kjósa um þau sem flest atkvæði fengu en ekki náðu kosningu í annarri umferð, þannig að tvö séu í kjöri um hvert sæti.

Ef tvö eða fleiri fá jafnmörg atkvæði, ræður hlutkesti úrslitum.

6.5

Atkvæðaseðill er ógildur, ef á honum eru nöfn einstaklinga, sem ekki eru í kjöri, eða ef ekki eru greidd atkvæði jafnmörgum og kjósa á. Auður seðill telst ekki til greiddra atkvæða en gefa skal upp fjölda auðra seðla og ógildra þegar kosningu er lýst.
Sé viðhöfð rafræn atkvæðagreiðsla er heimilt að gera ráð fyrir því að viðeigandi tölvubúnaður sé þannig úr garði gerður að ekki sé hægt að gera kjörseðil ógildan.

6.6

Við atkvæðagreiðslu fer hver þingfulltrúi með atkvæði í samræmi við 30.gr. laga ASÍ.

6.7

Þingforseti skal gera þingfulltrúum viðvart með tilkynningu áður en kosningar hefjast. Eftir hæfilegan umþóttunartíma, tilkynnir þingforseti að dreifing atkvæðaseðla hefjist og um leið ber starfsmönnum að sjá til þess að enginn gangi út eða inn í fundarsalinn þar til þingforseti hefur lýst yfir að kosningu sé lokið, atkvæðaseðlum safnað saman og athugasemdir ekki komið fram um það.

Fari kosningar eða atkvæðagreiðslur fram með rafrænum hætti skal þingforseti með sama hætti tilkynna að nú muni kosningar hefjast og gefa upp þann tíma sem áætlað er að kosning muni taka. Að svo búnu skal aðgangur að rafrænum kosningabúnaði opnaður og kosningar hefjast.

Kosning skal að minnsta kosti standa jafnlengi og þingforseti hefur áætlað. 10 mínútum áður en kosningu líkur samkvæmt ákvörðun þingforseta skal tilkynna fundinum þá ákvörðun. Að liðnum þeim fresti skal aðgangi að rafrænum kosningabúnaði lokað og lýsir þá þingforseti að kosningu sé lokið.

6.8

Um leið og talningu atkvæðaseðla við hverja atkvæðagreiðslu er lokið og niðurstaða talningar færð á skýrslu til þingforseta sem allir talningamenn hafa staðfest sem rétta, skulu atkvæðaseðlar innsiglaðir í traustan kassa eða varðveittir í lokuðum gagnagrunni hafi kosning verið rafræn og geymast þar til þingforseti hefur tilkynnt þingfulltrúum úrslit.

Komi ekki fram skrifleg krafa minnst 10 þingfulltrúa um endurtalningu atkvæða þegar eftir tilkynningu þingforseta, verður krafa um endurtalningu ekki tekin til greina.

Fyrir lok sambandsþingsins skulu atkvæðaseðlar eyðilagðir eða tölvugögnum eytt undir umsjón þingforseta.

6.9

Kjörgengir í trúnaðarstöður Alþýðusambands Íslands eru allir fullgildir félagar í aðildarsamtökum ASÍ. Tilnefningar skulu vera skriflegar og studdar með undirritun a.m.k. 15 þingfulltrúa. Skriflegar stuðningsyfirlýsingar þurfa þó ekki að fylgja tillögum kjörnefndar.

Sé á sambandsþingi stungið upp á fólki í trúnaðarstöður sem eigi situr fundinn, verða slíkar tilnefningar eigi teknar til greina nema fyrir liggi staðfest yfirlýsing um að viðkomandi taki kjöri.

7. Afgreiðsla og breyting þingskapa

7.1

Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður um afgreiðslu þingskapa.

7.2

Komi fram tillögur um fundarstjórn eða meðferð mála sem þessi þingsköp ná ekki til, þá ræður einfaldur meirihluti enda sé fundur löglegur.

Þingsköp þinga ASÍ þannig samþykkt á ársfundi ASÍ 2006 með síðari breytingum, síðast á 42. þingi ASÍ 2016.