Greinargerð

Jafn réttur og jöfn tækifæri allra kynja til starfa, starfsþróunar og launa eru meðal þeirra grundvallarmannréttinda sem verkalýðshreyfingin byggir á og skal standa vörð um. Sterk verkalýðshreyfing þrýstir á aukið jafnrétti í hvívetna. Alþýðusamband Íslands á að koma með virkum hætti að stefnumótun og aðgerðum í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Baráttan gegn launamun kynjanna beinist nú sérstaklega að kerfisbundnu vanmati á kvennastörfum og aðferðum til að leiðrétta það. Hugmyndafræðin hefur því þróast frá jafnlaunanálgun (jöfn laun fyrir sömu störf) í jafnvirðisnálgun (jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf). Jafnframt er áhersla lögð á að auka launagagnsæi sem einnig er mikilvægt tól til að draga úr launamun kynjanna.

Eftir a.m.k. tvær bylgjur #MeToo-mála, mikla vinnu af hálfu verkalýðshreyfingarinnar í málaflokknum og ágætis lagaramma, er ljóst enn ríkir úrræðaleysi gagnvart þolendum og gerendum. Engar samræmdar verklagsreglur eru til innan vébanda verkalýðshreyfingarinnar um viðbrögð við slíkum málum. Almennt eru sérfræðingar sammála því að þolendur kynferðislegrar áreitni/ofbeldi á vinnustöðum beri oftast byrðina. Þolendurséu gjarnan færðir til í starfi eða hrökklist af vinnustaðnum. Þá séu þolendur úrræðalausir ef ekki er tekið fast á máli þeirra innan vinnustaðarins. Atvinnurekendur hafa lagalega skyldu til að taka á slíkum málum en dæmin sanna að þeim reynist það oft erfitt. Til að bæta úr þessu komi heildarsamtök launafólks á fót þolendamiðaðri aðstoð fyrir fólk á vinnumarkaði. Þar mæti þolanda starfsmaður með fagþekkingu sem veitir réttar og áreiðanlegar upplýsingar um úrræði sem eru í boði, sálrænan stuðning og samkennd. Sérfræðingurinn bjóði þolanda jafnframt aðstoð við að rekja mál sitt á vinnustað og eftirfylgni ef eftir því er óskað. Einnig verði stofnað sérstakt fagráð heildarsamtaka launafólks sem tekur á brotum félagslega kjörinna fulltrúa innan verkalýðshreyfingarinnar.

Stofna skal sérstakan kvennavettvang ASÍ þar sem konur í verkalýðshreyfingunni geta starfað að sínum hagsmunum með skipulegum hætti. Tímabært er að hreyfingin eigi slíkan vettvang, líkt og tíðkast í flestum fjöldahreyfingum.

Líkt og kemur fram í ályktun Kvennaráðstefnu ASÍ 2022 til miðstjórnar ASÍ á verkalýðshreyfingin að beita sér af fullum krafti fyrir bættum kjörum og réttindum kvenna á lægstu laununum. Þeim sé tryggð grunnframfærsla svo að þær geti lifað sjálfstæðu og óháðu lífi hvort heldur sem er meðan þær eru starfandi á vinnumarkaði eða komnar á eftirlaunaaldur.

Áherslur ASÍ

  • Verkalýðshreyfingin fagnar fjölbreytileikanum í öllum sínum myndum. Stuðla skal að því að allt fólk fái jafnan aðgang og tækifæri á vinnumarkaði og efla fræðslu um fjölbreytileika.
  • Útrýma skal launamun kynjanna, fyrst og fremst með áherslu á leiðréttingu á kerfisbundnu vanmati á kvennastörfum. Einnig með því að þróa leiðir til launagagnsæis og að framfylgja betur banni á launaleynd.
  • Stórbæta skal sameiginleg viðbrögð við #MeToo-málum af hálfu heildarsamtaka launafólks.
  • Stofna skal sérstakan vettvang í hreyfingunni til að veita kvennasamstöðu farveg.
  • Beina þarf sjónum sérstaklega að stöðu og velferð fólks í láglaunastörfum, þá ekki síst kvenna af erlendum uppruna, í samvinnu við kvennahreyfinguna og grasrótarsamtök.
  • Efla og styrkja stöðu ungs fólk á vinnumarkaði.
  • Tryggja að kynjafræði verði skyldufag í kennaranámi og öðru uppeldisnámi á háskólastigi.

Verkefni ASÍ

  • Taka þátt með öðrum aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvöldum í markvissum aðgerðum til að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Þróunarverkefni verði komið á fót með það að markmiði að skapa verkfæri sem fangar jafnvirðisnálgunina (sjá greinargerð). Þróa samningaleið um jafnlaunakröfur og byggja upp þekkingu og standa fyrir vitundarvakningu. Efla fræðslu um fjölbreytileika.
  • Setja á laggirnar: 1. Þolendamiðað úrræði fyrir launafólk sem orðið hefur fyrir kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi í vinnutengdu umhverfi og 2. Sameiginlegt fagráð verkalýðshreyfingarinnar sem tekur á móti málum þar sem félagslega kjörnir fulltrúar eru meintir gerendur.
  • Stofna vettvang í verkalýðshreyfingunni þar sem unnið er að málefnum kvenna á vinnumarkaði og innan verkalýðshreyfingarinnar. Vettvangurinn styðji m.a. við tengslanet kvenna í hreyfingunni með varanlegum hætti og styrki konur til áhrifa innan hreyfingarinnar.
  • Kortleggja og styrkja stöðu jaðarsettra hópa og fólks í láglaunastörfum, með sérstaka áherslu á fólk af erlendum uppruna. Kanna að hvaða marki fólk af erlendum uppruna vinnur störf sem ekki samræmast menntun þeirra og að vekja athygli á vannýttri þekkingu þeirra.
  • Vinna markvisst að því að efla og styrkja stöðu ungs fólks á vinnumarkaði, t.d. með áherslu á fæðingarorlof, umönnunarbil, húsnæði og málefni sem snerta sérstaklega ungt fólk.