1.gr.
Aðildarsamtökum ASÍ (landssamböndum og öllum einstökum aðildarfélögum) ber senda miðstjórn ASÍ til staðfestingar allar breytingar sem gerðar eru á lögum þeirra.
2.gr.
Breytingarnar skulu lagðar fyrir miðstjórn svo fljótt sem við verður komið ásamt umsögn laganefndar ASÍ og tillögu um hvort staðfesta beri breytinguna alveg, að hluta, að engu leyti eða með tilmælum um lagfæringar.
3.gr.
Aðildarsamtökin skulu greina sérstaklega þær breytingar sem gerðar eru þannig að skýrt komi fram hvernig viðkomandi ákvæði hljóðaði áður og hvernig það hljóðar nú ef um breytingu á eldra ákvæði er að ræða. Jafnframt skulu fylgja lög aðildarsamtakanna í heild eins og þau eru eftir breytingar.
4.gr.
Komi ekki fram hvaða ákvæðum laganna er breytt eða ef um ný lög í stað eldri er að ræða án þess að getið sé um hvaða efnisbreytingar gerðar séu, skal laganefnd þegar í stað óska eftir því að breytingarnar séu sérgreindar í samræmi við 3.gr.
5.gr.
Sé einhverjum þeim lagaákvæðum breytt er varða samningssvið eða samningssvæði viðkomandi samtaka skal laganefnd senda öllum Landssamböndum og öllum aðildarfélögum ASÍ afrit breytinganna með tilkynningu um að viðkomandi samtök hyggist breyta lögum sínum. Gefa skal 3 vikna frest til þess að gera athugasemdir.
6.gr.
Komi engar athugasemdir fram skal þess getið í umsögn Laganefndar að viðkomandi lagaákvæði geti skarað samnings- eða félagssvæði annarra aðildarsamtaka ASÍ.
7.gr.
Komi fram athugasemdir frá aðildarfélagi eða landssambandi fyrir þess hönd varðandi skörun við samningssvið þess á samningssvæðinu skal Laganefnd fresta afgreiðslu lagabreytinganna og beina þeim tilmælum til viðkomandi aðildarfélaga að þau gangi til viðræðna um gerð samkomulags um samningssviðið sbr. 15.gr. laga ASÍ .
Takist samkomulag með aðilum skulu þeir senda það til Laganefndar sem að svo búnu leggur til að lagabreytingin verði staðfest af miðstjórn.
Takist ekki samkomulag með aðilum innan 6 mánaða frá því Laganefnd beindi tilmælum sínum til félaganna, enda hafi þau ekki vísað ágreiningi sínum til miðstjórnar sbr. 1 og 2.mr. 10.gr. laga ASÍ , skal Laganefnd leggja lagabreytingu fyrir miðstjórn til afgreiðslu þannig að breytingin verði staðfest samhliða því sem athygli er vakin á skörun milli aðildarfélaganna. Að lokinni afgreiðslu í miðstjórn ASÍ skal tilkynna viðkomandi samtökum niðurstöðu miðstjórnarinnar.
8.gr.
Laganefnd er skipuð einum fulltrúa úr hópi aðalmanna í miðstjórn og tveimur fulltrúum skipuðum af miðstjórn úr hópi fulltrúa í skipulags- og starfsháttanefnd. Lögfræðingur ASÍ er starfsmaður nefndarinnar.
Þannig samþykkt í miðstjórn ASÍ með áorðnum breytingum 4.10 2023.