I. Kafli – Skil á reglugerðum og reglugerðarbreytingum
1. gr.
Aðildarfélögum ASÍ ber að senda miðstjórn ASÍ til staðfestingar, frumreglugerð fyrir sjúkrasjóði sína en síðari breytingar ber þeim að senda skrifstofu ASÍ.
2. gr.
Frumreglugerð skal lögð fyrir miðstjórn svo fljótt sem við verður komið ásamt umsögn Skipulags- og starfsháttanefndar og tillögu um afgreiðslu.
3. gr.
Breytingar á reglugerðum skulu lagðar fyrir Skipulags- og starfsháttanefnd svo fljótt sem við verður komið, ásamt umsögn skrifstofunnar. Séu breytingar ekki skýrt greindar skal reglugerðin í heild sinni skoðuð eins og um nýja reglugerð sé að ræða.
4. gr.
Tilkynna skal viðkomandi sjúkrasjóði um afgreiðslu Skipulags- og starfsháttanefndar og eftir atvikum um afgreiðslu miðstjórnar svo fljótt sem verða má.
5. gr.
Komi í ljós að einhver ákvæði sjúkrasjóðsreglugerðar aðildarfélags eru í andstöðu við lög ASÍ skal Skipulags- og starfsháttanefnd óska eftir nánari skýringum viðkomandi sjóðs, komi þær ekki fram í þeim gögnum sem þegar liggja fyrir.
Telji Skipulags- og starfsháttanefnd reglugerðina eða einstök ákvæði hennar ekki standast lágmarksákvæði laga ASÍ skal hún leggja málið fyrir miðstjórn ásamt umsögn sinni og tillögu um afgreiðslu.
Miðstjórn skal í afgreiðslu sinni taka afstöðu til þess hvort reglugerðin eða einstök ákvæði hennar standist lög ASÍ eða ekki.
Séu einhver ákvæði reglugerðarinnar ekki staðfest skal miðstjórn tilkynna viðkomandi sjúkrasjóði og öllum stjórnarmönnum viðkomandi aðildarfélags, að um þau tilteknu atriði gildi lög ASÍ þar til úr hafi verið bætt. Afrit slíkrar tilkynningar skal jafnframt send viðkomandi landssambandi.
II. Kafli – Skil á mati á framtíðarstöðu
6. gr.
Samkvæmt 3.mgr. 49.gr. laga ASÍ ber aðildarfélögum ASÍ reglulega að skila til skrifstofu ASÍ mati á framtíðarstöðu sjúkrasjóða sinna, í fyrsta sinn 2007 vegna reikningsársins 2006 og síðan á fimm ára fresti.
7. gr.
Skrifstofa ASÍ gerir Skipulags- og starfsháttanefnd grein fyrir innsendum matsniðurstöðum ásamt tillögu sinni um afgreiðslu.
8. gr.
Verði veruleg vanhöld á skilum aðildarfélags eða beri mat á framtíðarstöðu með sér, að sjúkrasjóður geti ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. 49.gr. laga ASÍ eða verulegar athugasemdir eru við stöðu og/eða reikningshald sjóðsins skal Skipulags- og starfsháttanefnd þegar í stað gera miðstjórn aðvart. Um málsmeðferð eftir það fer skv. starfsreglum um framkvæmd 11.gr. laga ASÍ.
Þannig samþykkt í miðstjórn ASÍ 9.1 2013. Samhliða falla úr gildi „Starfsreglur vegna umsagna og afgreiðslu á reglugerðum sjúkrasjóða“ frá 24.5 2006.