Sjóðurinn er stofnaður skv. ákvörðun miðstjórnar Alþýðusambands Íslands á fundi 21. júlí 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson. Skipulagsskrá hans er samþykkt á fundi sambandsstjórnar ASÍ í desember 1983. Staðfesting forsetans á skipulagsskrá fyrir minningarsjóð Eðvarðs Sigurðssonar, útgefin á venjulegan hátt ad mandatum af dómsmálaráðherra 11. desember 1984. Skipulagsskráin er þannig:
1. grein
Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar.
2. grein
Stofnfé sjóðsins er kr. 1 000 000,00 — ein milljón krónur 00/100 — Stofnfé sjóðsins má aldrei skerða.
Sjóðinn skal ávaxta ef unnt er í vísitölutryggðum ríkisskuldabréfum eða á annan jafntryggan hátt.
3. grein
Tekjur sjóðsins eru vaxtatekjur af stofnfé og öðru fé sem sjóðnum kann að áskotnast, gjafir og áheit sem sjóðnum kunna að berast, og tekjur sem stjórn sjóðsins kann að afla honum á annan hátt.
4. grein
Tilgangur sjóðsins er m. a. að styrkja verkafólk til að afla sér fræðslu um málefni og starf verkalýðshreyfingarinnar.
Meðal hlutverka sjóðsins skal vera að stuðla að því að saga Dagsbrúnar verði skrifuð og gefin út.
5. grein
Stjórn sjóðsins skipa þrír menn skipaðir af miðstjórn ASÍ. Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum.
Kjörtímabil stjórnar minningarsjóðsins er það sama og kjörtímabil miðstjórnar ASÍ og skal miðstjórn ASI skipa sjóðsstjórn í upphafi kjörtímabils síns.
Einfaldur meirihluti ræður ákvörðunum innan sjóðsstjórnar. Þó má sjóðsstjórnin aldrei ráðstafa árlega meiru en 1/5 hluta sjóðsins án sérstakrar samþykktar miðstjórnar ASÍ.
6. grein
Sjóðsstjórnin semur reikninga sjóðsins árlega og skulu þeir endurskoðaðir af endurskoðendum Alþýðusambandsins. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.
7. grein
Skipulagsskrá þessari verður ekki breytt nema með samþykki sambandsstjórnarfundar ASÍ.
8. grein
Leita skal staðfestingar forseta Íslands á skipulagsskrá þessari.
Þannig birt í Stjórnartíðindum B 52-53, nr. 467-498. Útgáfudagur 31. desember 1984.