Reglurnar

Reglur þessar eiga við um umsóknir um greiðslur úr Vinnudeilusjóði ASÍ. Megintilgangur Vinnudeilusjóðs ASÍ er að styrkja stöðu ASÍ sem heildarsamtaka í deilum og hugsanlega átökum við atvinnurekendur og eftir atvikum í átökum við stjórnvöld vegna stórra sameiginlegra hagsmuna allra aðildarsamtakanna. Þetta getur einnig átt við þegar einstök aðildarsamtök ASÍ fara í verkfallsaðgerðir fyrir hönd aðildarsamtakanna til þess að ná fram sameiginlegum hagsmunum hreyfingarinnar allrar. Við þær aðstæður er heimilt að deila kostnaði einstakra aðildarsamtaka með öðrum aðildarsamtökum í gegnum Vinnudeilusjóð ASÍ.

Í sérstökum tilfellum er heimilt að veita úr Vinnudeilusjóði ASÍ minni styrki til aðildarsamtaka ASÍ, þegar sérstaklega standur á.

Til þess að taka afstöðu til umsóknar þarf eftirfarandi að koma fram og eftir atvikum fylgja henni:

  • Umsækjandi veiti miðstjórn ASÍ heimild til þess að nota innsenda ársreikninga félagsins síðast liðin ár til þess að meta stöðu og starfsemi vinnudeilusjóðs félagsins.
  • Upplýsingar um hvernig innheimtu og ráðstöfun félagsgjalda sé háttað þannig að sem best sé búið að fjárhagslegri stöðu félagsins og vinnudeilusjóði þess þ.a. félagið sé undirbúið undir átök og félagsmenn upplýstir um getu félagsins til stuðnings við þá. ( Hlutfall félagsgjalda af launum eða upphæð þeirra, hámark gjalda, endurgreiðslur o.fl.)
  • Upplýsingar um hvaða reglur eru í gildi hjá umsækjanda, m.a. hvernig úthlutað er úr vinnudeilusjóði félagsins eða félagssjóði eftir atvikum, hverjir eigi rétt til bóta og að ekki sé mismunað, hvenær greiðslur skuli hefjast og hver skuli vera fjárhæð bóta eða viðmiðunarreglur þar um.
  • Hefur verið óskað eftir eða fenginn stuðningur frá félögum innan eða utan ASÍ vegna yfirstandandi átaka.

Miðstjórn ASÍ úthlutar styrkjum úr Vinnudeilusjóði ASÍ.

Þannig samþykkt í miðstjórn ASÍ 15.2 2017.

Greinargerð

Engin bein ákvæði er að finna í lögum ASÍ um Vinnudeilusjóð ASÍ eftir að 2. mgr. 45. gr. var felld úr lögum þess um miðjan síðasta áratug þegar stöðu sjóðsins í samstæðureikningi Alþýðusambandsins var breytt.

Þar sagði:

„Vinnudeilusjóði skal varið til að styðja aðildarsamtökin í vinnudeilum, eftir reglum sem miðstjórn setur, eða nánari fyrirmælum hennar hvert sinn. Miðstjórn getur sett þau skilyrði fyrir beinni fjárhagslegri hjálp úr sjóðnum í vinnudeilum, að félag hafi sjálft komið sér upp vinnudeilusjóði og verji honum til styrkja á þann hátt, er miðstjórn fellst á.“ 

Ekki hafa áður verið settar formlega reglur um greiðslur úr sjóðnum, en miðstjórn telur eðlilegt að slíkar reglur taki annars vegar mið af fyrrnefndu ákvæði, að því virtu að reglur sambandsins gera ekki sjálfstæða kröfu til þess að aðildarfélögin ASÍ séu með sjálfstæða vinnudeilusjóði. Því beri að túlka þetta ákvæði með þeim hætti, að aðildarfélögin hafi á að skipa fjármunum til þess að geta staðið að baki sínum félagsmönnum í vinnudeilum. Hins vegar verði slíkar reglur að taka mið af hlutverki og ábyrgð ASÍ, hlutverki og ábyrgð aðildarsamtakanna og stöðu ASÍ gagnvart þeim, enda er starfsemi ASÍ og framlög til Vinnudeilusjóðs ASÍ fjármögnuð með sköttum landssambanda og félaga með beina aðild.  Þessum fjármunum er ASÍ heimilt að ráðstafa í þágu hlutverks og markmiða sambandsins eins og þau koma fram í lögum þess sbr. m.a. 3. gr. laga ASÍ þar sem segir:

„Hlutverk sambandsins er:

Að hafa forystu í stéttarbaráttu launafólks, koma fram fyrir hönd aðildarfélaga í sameiginlegum málum gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum, innanlands og á alþjóðavettvangi. Móta og samræma heildarstefnu samtakanna í atvinnu-, mennta-, umhverfis- og kjaramálum.

Að samræma og tryggja framkvæmd þjónustu aðildarfélaganna við félagsmenn þeirra.

Að standa að gerð kjarasamninga um sameiginleg mál sem aðildarsamtökin fela sambandinu skv. 9. gr. …. „