1. grein
Meginregla

Starfsnefndir skulu leitast við að halda fundi sína bæði sem staðfundi og fjarfundi þ.a. að fulltrúar sem búsettir eru utan Reykjavíkurkjördæmanna og suðvestur kjördæmisins eigi þess kost að sækja hvern fund sem fjarfund nema annað sé sérstaklega ákveðið. Fundir miðstjórnar skulu annað af tvennu vera staðfundir eða fjarfundir. Reglur þessar taka jafnframt til áheyrnarfulltrúa ASÍ-UNG í miðstjórn.

2. grein
Ferðir

Alþýðusamband Íslands endurgreiðir fulltrúum aðildarfélaga sinna ferðakostnað vegna fulltrúa þeirra í miðstjórn og starfsnefndum ASÍ sem hér segir:

  • Réttur til endurgreiðslu skv. 1. mgr. skapast einungis vegna fulltrúa sem búsettir eru í 50 km. fjarlægð eða meira frá fundarstað.
  • Endurgreiðsla miðast við kílómetragjald skv. viðmiðunarreglum Ríkisskattstjóra eða flugfargjald við flugrekstraraðila eins og þeir eru á hverjum tíma. Sé tveggja kosta völ skal greitt m.v. þann kost sem ódýrari er.

Hafi ASÍ náð samningum við ferðaþjónustuaðila um sérstök afsláttarkjör (bílaleigur, gisting) skulu fulltrúar leitast við að nýta þau afsláttarkjör.

3. grein
Gisting og fæði

Alþýðusamband Íslands endurgreiðir fulltrúum aðildarfélaga sinna vegna gistingar og fæðis fulltrúa þeirra í miðstjórn og starfsnefndum ASÍ sem hér segir:

  • Réttur til endurgreiðslu skv. 1. mgr. skapast vegna fulltrúa sem búsettir eru í meira en 150 km fjarlægð frá fundarstað.
  • Útlagður kostnaður vegna fæðis og gistingar er endurgreiddur skv. framlögðum og greiddum reikningum. Þegar boðið er upp á hádegisverð í mötuneyti ASÍ greiðist ekki kostnaður vegna hádegisverðar á fundardögum.

4. grein
Þóknun

Fulltrúar í starfsnefndum og fulltrúar í miðstjórn sem jafnframt eru starfsmenn hjá einhverjum aðildarsamtaka ASÍ eiga ekki rétt til launa eða annarrar þóknunar frá ASÍ til þeirra starfa sem þeir eru kjörnir eða skipaðir til.

Fulltrúum í miðstjórn sem ekki eru jafnframt starfsmenn hjá einhverjum aðildarsamtaka ASÍ er greitt fyrir fundarsetu og undirbúning vegna hvers fundar sem sóttur er það launatap sem þeir sannanlega verða fyrir. Framvísa skal launaseðli og reiknast þá launatapið út frá honum.

Formenn starfsnefnda sem koma úr röðum miðstjórnarmanna og sem ekki eru jafnframt starfsmenn hjá einhverjum aðildarsamtaka ASÍ eru greiddar fyrir fundarsetu og vegna undirbúnings hvers fundar sem sóttur er með sama fyrirkomulagi og að ofan greinir. Þóknun þeirra fulltrúa í starfsnefndum sem ekki eru jafnframt starfsmenn hjá þeim aðildarsamtökum ASÍ sem skipa þá er greidd af þeim samtökum og eftir þeim reglum sem þau setja sér.

5. grein
Eyðublað

Fulltrúar skulu sækja um endurgreiðslu vegna kostnaðar og/eða þóknunar vegna fundarsetu með því að fylla út eyðublað sem ASÍ leggur til, ásamt því að framvísa framlögðum reikningum og launaseðlum, þegar við á. ASÍ skal ganga frá greiðslu innan 30 daga frá því að krafa um greiðslu berst.

Reglugerð þessi er sett skv. 2. mgr. 19. gr. sbr. og 10.mgr. 33.gr. laga ASÍ af miðstjórn þann 20. desember 2023.