1. grein

Safnið heitir Listasafn Alþýðusambands Íslands (Listasafn ASÍ). Safnið er eign Alþýðusambands Íslands og fer miðstjórn ASÍ með yfirstjórn þess.

2. grein

Safnið er eign Alþýðusambands Íslands. Safnið er stofnað samkvæmt ósk og að frumkvæði Ragnars Jónssonar forstjóra til minningar um Erlend Guðmundsson í Unuhúsi.

3. grein

Aðalhlutverk safnsins skal vera

  • að varðveita og hafa til sýnis fyrir almenning listaverk þau, sem Ragnar Jónsson gaf ASÍ til eignar hinn 17. júní 1961 svo og önnur listaverk, safnið á og kann að eignast
  • koma íslenskri myndlist á framfæri við almenning
  • reka sýningarsal og skylda starfsemi.

Safnið skal í hvívetna stuðla að því að íslensk myndlist nái til almennings með sýningum sem víðast og er heimilt að eiga samvinnu við aðra aðila í því sambandi.

Safnið starfar samkvæmt gildandi safnalögum og fylgir siðareglum ICOM, Alþjóðaráðs safna, International Council of Museums.

4. grein

Starfsfé safnsins eru skatttekjur frá verkalýðsfélögum innan ASÍ eins og þær eru ákveðnar í lögum ASÍ, framlög til safnsins af hálfu hins opinbera og eigin sjálfsafla­tekjur.

Allur arður af starfseminni rennur til safnsins sjálfs.

Reikningar safnsins skulu gerðir upp árlega miðað við almanaksárið og endurskoðaðir af kjörnum endurskoðendum ASÍ og löggiltum endurskoðanda þess.

Þeir skulu ásamt fjárhagsáætlun næsta árs lagðir fyrir miðstjórn ASÍ. Ársreikningarnir skulu lagðir fyrir sambandsþing ASÍ til fullnaðarafgreiðslu.

5. grein

Daglega stjórn safnsins í umboði miðstjórnar annast rekstrarstjórn. Hún skal skipuð þrem mönnum, sem miðstjórn kýs til tveggja ára í senn.

Miðstjórn ræður forstöðumann safnsins. Rekstrarstjórn hefur umsjón með daglegum rekstri og ber ábyrgð á fjármálum þess gagnvart miðstjórn og tekur endanlegar ákvarðanir í umboði hennar um allan rekstur safnsins. Fyrir lok nóvember ár hvert skal rekstrarstjórn leggja nákvæma rekstraráætlun fyrir miðstjórn sem hún skal afgreiða.

Allar ákvarðanir, sem fela í sér miklar breytingar á starfsemi safnsins, skulu þó bornar undir miðstjórn til samþykktar eða synjunar.

6. grein

Við safnið skal starfa þriggja manna listráð. Forstöðumaður safnsins skal eiga sæti í ráðinu og vera formaður þess. Auk þess skipar miðstjórn tvo listfræðinga til setu í ráðinu til tveggja ára í senn.

Miðstjórn ASÍ skal ákveða þóknun listfræðinganna fyrir setu í ráðinu.

Listráðið skal vera rekstrarstjórn og miðstjórn til ráðuneytis um allt sem lýtur að listfræðilegum málum. Allar umsóknir um afnot af sýningarsal safnsins skulu lagðar fyrir listráðið. Þá skal listráðið fjalla um sýningar, sem efnt er til á vegum safnsins hvort sem er í sýningarsal þess eða annars staðar. Ef til greina kemur að safnið þiggi listaverk að gjöf eða kaupi listaverk skal slíkt lagt fyrir listráðið.

7. grein

Safnið skal starfrækja fræðslu- og kynningarsýningar um íslenska myndlist utan safnsins, á vinnustöðum, í húsakynnum verkalýðsfélaga eða opinberra stofnana.

Rekstrarstjórn skal ákveða gjaldskrá fyrir þessa þjónustu.

8. grein

Komi til þess að safnið verði lagt niður skal safnkosturinn renna til sambærilegrar stofnunar.

9. grein

Breytingar á reglugerð þessari verða aðeins gerðar af þingi Alþýðusambands Íslands og taka þær gildi þegar við samþykkt.

Þannig samþykkt með áorðnum breytingum á 41. þingi ASÍ 2014.