Verkföll halda áfram í Finnlandi í dag, föstudaginn 2. febrúar, og eru samgöngur í landinu að mestu lamaðar af þeim sökum. Til verkfallanna er boðað vegna áforma ríkisstjórnarinnar um breytingar á vinnumarkaðslöggjöf sem koma munu þyngst niður á þeim sem búa við bágust kjör.
Starfsfólk járnbrauta, jarðlesta, spor- og strætisvagna bættist í hóp verkfallsmanna í dag og liggur starfsemi niðri í uppskipunarhöfnum, á flugvöllum, í ferjuhöfnum og víðar. Þá hefur launafólk í hreingerningum, verksmiðjum, námum, byggingafyrirtækjum og í póstþjónustu einnig lagt niður störf. Veitingastaðir hafa margir neyðst til að loka og starfsemi í skólum og á barnaheimilum hefur einnig orðið fyrir truflunum af þessum sökum.
Bein árás á kjör og velferð
Verkföllin hófust á miðvikudag og er gert ráð fyrir að þeim verði framhaldið í næstu viku. Talið er að um 300.000 manns taki þátt í aðgerðunum.
Jarkko Eleoranta, forseti finnska Alþýðusambandsins (SAK), segir fyrirliggjandi áform stjórnvalda beina og margþætta árás á launafólk í landinu. Ríkisstjórnin stefni að því að draga úr slagkrafti verkalýðshreyfingarinnar og ráðast gegn velferðarkerfinu. Afkomu fjölda fólks verði ógnað af þessum sökum og snúið verði við viðleitni til að sigrast á kynbundum launamuni á finnskum vinnumarkaði.
Hyggjast takmarka verkfallsréttinn
Mið-hægri stjórn Petteris Orpo, forsætisráðherra, hyggst takmarka verkfallsréttinn og banna ríkissáttasemjara að leggja fram tillögur um launahækkanir sem eru umfram þær sem útflutningsverðmæti Finnlands leyfa. Nái tillögur ríkisstjórnarinnar fram að ganga verður m.a. einnig hætt greiða laun fyrir fyrsta veikindadag auk þess sem réttur til atvinuleysisbóta verður skertur. Opinberum stuðningi við fullorðinsfræðslu verður hætt.
Myndin sýnir fjölmenn mótmæli launafólks í Helsinki á fimmtudag (Ljósmynd/SAK).